Samkvæmt nýrri könnun sem Maskína gerði fyrir fréttastofu kemur fram að einungis 18 prósent hafa veðjað eða tekið þátt í fjárhættuspilum á síðustu tólf mánuðum.

Þeir sem sögðust hafa stundað veðmál eða fjárhættuspil á erlendum vefsíðum spiluðu flestir á Coolbet eða 78,2 prósent en fæstir á Betfair. Þá leggja flestir 20 til tæplega 50 þúsund undir í veðmálum.
Coolbet fer mikinn í auglýsingum hér á landi en hvorki má starfrækja né auglýsa fyrirtækið á Íslandi. Athygli vakti þegar Coolbet auglýsti grimmt í útilegu Verzlinga og fengu börn gefins fatnað merktan fyrirtækinu og voru hvött til að fylgja því á samfélagsmiðlum.
Nýjasta dæmið er fjölskylduhátíðin Ein með öllu á Akureyri. En á plakötum hátíðarinnar mátti sjá styrktaraðilann Coolbet. Uppi varð fótur og fit þegar fréttastofa hafði samband við talsmann hátíðarinnar sem sagðist brugðið vegna málsins og sagðist ekki þekkja til starfsemi Coolbet. Ólögleg veðmálasíða fari ekki saman við fjölskylduhátíð og sagði hann að hátíðin myndi slíta samstarfi við fyrirtækið og hefur merki þess tekið af öllum plakötum.

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra vonast til að geta lagt fram frumvarp um erlendar veðmálasíður í haust.
„Það er vinna hér í gangi og ég vænti þess að það komi niðurstaða úr þeirri vinnu þannig ég geti lagt fram vonandi frumvarp í haust í þá veruna.“

Aðspurð hvort hún vilji herða reglur og banna starfsemina eða leyfa hana og skýra regluverk í kringum veðmálastarfsemi á erlendum síðum segir Guðrún seinni valkostinn hugnast betur.
„Ég hef sagt að mér finnst eðlilegt að við séum með skýrara regluverk utan um þessa starfsemi og einnig að horfa til þess að þau fyrirtæki sem hér eru að starfa á markaði, að þau greiði hér skatta af þeirri starfsemi til ríkisins.“