Fótbolti

Ryan Sessegnon aftur heim í Ful­ham

Siggeir Ævarsson skrifar
Ryan Sessegnon í leik með Fulham fyrir margt löngu
Ryan Sessegnon í leik með Fulham fyrir margt löngu vísir/getty

Örvfætti miðjumaðurinn Ryan Sessegnon er genginn til liðs við uppeldisfélag sitt Fulham á frjálsri sölu en Sessegnon var á sínum tími seldur til Tottenham á 25 milljónir punda.

Sessegnon þótti afar efnilegur en hann var aðeins 16 ára þegar hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Fulham. Eftir að hafa slegið í gegn þar og leikið 106 deildarleiki var hann seldur til Tottenham árið 2019 en fjölmörg stórlið höfðu áhuga á honum þá.

Ferillinn hjá Tottenham fór ágætlega af stað en þrálát meiðsli í lærvöðva hafa haldið honum ítrekað utan vallar síðustu ár. Hann lék raunar ekki sinn fyrsta leik fyrir liðið fyrr en í nóvember 2019 vegna téðra meiðsla.

Tímabilið 2020-21 var hann lánaður til Hoffenheim þar sem hann náði sér aðeins á strik en meiðslin héldu áfram að plaga hann og á síðasta tímabili kom hann aðeins við sögu í einum leik hjá Tottenham.

Sessegnon fór í tvær aðgerðir á síðasta tímabili, fyrst á vinstri fæti en lærvöðvinn þar hafði plagað hann árum saman. Hann þurfti svo að fara á aðgerð á hinum fætinum einnig. Sjaldan er ein báran stök eins og þeir segja.

Síðustu vikur hefur Sessegnon æft með Crystal Palace en fleiri lið í ensku úrvalsdeildinni eru sögð hafa haft áhuga á að láta reyna á hvort Sessegnon hafi náð sér af meiðslum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×