Fótbolti

Fram­tíðin enn óákveðin: „Ég sagði aldrei að ég væri á förum“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pep Guardiola útilokar ekki að halda áfram með Manchester City eftir komandi tímabil.
Pep Guardiola útilokar ekki að halda áfram með Manchester City eftir komandi tímabil. Michael Regan/Getty Images

Pep Guardiola, knattspyrnustjóri Englandsmeistara Manchester City, segir að hann gæti vel hugsað sér að halda áfram með liðið eftir komandi tímabil.

Samningur þjálfarans rennur út næsta sumar og eftir að liðið tryggði sér sinn fjórða Englandsmeistaratitil í röð - sem er met - sagði Guardiola að hann væri „nær því að hætta en að halda áfram.“

Síðasta tímabil var áttunda tímabil Spánverjans með City. Á þessum átta árum hefur liðið sex sinnum orðið Englandsmeistari og alls eru titlarnir orðnir 17 talsins.

Manchester City er þessa stundina í æfingaferð um Bandaríkin og fyrir leik liðsins gegn AC Milan, sem fram fer í dag, sagði Guardiola að ekkert væri ákveðið varðandi framtíð hans hjá félaginu.

„Ég sagði aldrei að ég væri á förum,“ sagði Guardiola á blaðamannafundi. 

„Níu ár hjá sama félaginu eru heil eilífð. En ég útiloka ekki að ég muni framlengja samningnum. Ég vill vera viss um að það sé rétt ákvörðun fyrir félagið og fyrir leikmennina.“

„Þegar ég tek ákvörðun mun ég tala við stjórnarformanninn og yfirmann íþróttamála. En fyrst vill ég byrja þetta tímabil, sjá hvernig gengur og hversu tengdir við erum. Eftir það skulum við sjá til.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×