Innlent

Þyrlan í vand­ræðum með að sækja mann sem steig í hver

Eiður Þór Árnason og Tómas Arnar Þorláksson skrifa
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bíður neðan við Kerlingafjöll eftir því að björgunarsveitarmenn komi með manninn.
Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar bíður neðan við Kerlingafjöll eftir því að björgunarsveitarmenn komi með manninn. Vísir/Tómas

Þyrluáhöfn Landhelgisgæslunnar sem ætlaði að sækja slasaðan göngumann í Kerlingafjöllum þurfti frá að hverfa vegna slæms skyggnis. Göngumaðurinn er talinn vera með þriðja stigs bruna upp að hné eftir að hafa stigið ofan í hver.

Þetta segir þyrluflugmaður hjá Landhelgisgæslunni. Búið er að staðsetja manninn og reyna björgunarsveitarmenn frá uppsveitum Árnessýslu að komast að honum. Á meðan bíður þyrluáhöfnin eftir því að skýjahulan þynnist. 

„Hún komst ekki vegna skyggnis upp í fjallaveggnum á slysstað og þurfti bara að lenda við hótelið og bíða þangað til það væri hægt að ferja sjúklinginn til þeirra. Svo fór að létta eitthvað til og þeir reyndu aftur en gekk ekki svo þeir lentu bara aftur. Þeir eru bara að doka eftir því að björgunarsveitir komi með sjúklinginn til þeirra,“ segir Hreggviður Símonarson í bakvakt aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni.

„Þetta er svolítill spotti frá bílastæðinu svo það tekur smá stund að labba.“

Uppfært 18:20: Hreggviður segir í samtali við fréttastofu að björgunarsveitarmenn vinni nú að því að bera hinn slasaða til byggða og koma honum að þyrlunni. Ekki hafi létt nægilega til svo hægt yrði að fljúga þyrlunni að slysstað. 

Þyrla Landhelgisgæslunnar tók á loft en þurfti frá að hverfa vegna lágrar skýjahulu.Vísir/Tómas
Vísir/Tómas

Fréttin hefur verið uppfærð. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×