Sport

Þríþrautinni frestað um sólar­hring vegna skítugar Signu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, synti í Signu í aðdragandi Ólympíuleikanna en nú er ekki óhætt að synda í ánni vegna of mikils magns baktería.
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, synti í Signu í aðdragandi Ólympíuleikanna en nú er ekki óhætt að synda í ánni vegna of mikils magns baktería. Getty/ Pierre Suu/

Fyrsta Ólympíukeppni íslensku þríþrautarkonunnar Guðlaugar Eddu Hannesdóttur er því miður hægt og rólega að breytast í einhvern farsa.

Keppni í þríþraut karla á Ólympíuleikunum í París fer ekki fram í dag eins og áætlað var. Keppninni hefur verið frestað vegna lélegs ástands vatnsins í Signu. Þetta var gert aðeins nokkrum klukkutímum áður en keppnin átti að hefjast.

Mælingar mótshaldara sýna of mikið magn baktería í ánni en allar rigningarnar um síðustu helgi höfðu mjög slæm áhrif á gæði vatnsins. Fráveitukerfi Parísar yfirfylltist og óhreinsað skolp rann út í Signu. Það sést á mælingum þar sem E. Coli og fleiri hættulegar bakteríur eru langt yfir öllum viðmiðunarmörkum á mörgum stöðum.

Nú á að reyna aftur á morgun. Konurnar munu þá keppa klukkan átta að staðartíma en karlarnir byrja síðan klukkan 10.45. Þríþrautin á að byrja á sundi í Signu en svo taka við hjólreiðar og hlaup.

Ef þetta gengur ekki upp þá er síðasti möguleikinn á að keppnin fari fram á föstudaginn 2. ágúst. Það er líka möguleiki á því að þríþrautinni verði breytt í tvíþraut og þeir hreinlega sleppi sundhlutanum sem er fáránleg lausn að mati Vésteins Hafsteinssonar, yfirfararstjóra íslenska hópsins.

Það er heitur dagur framundan í París þar sem hitinn mun fara yfir þrjátíu gráður. Það er líka búist við því að það rigni mikið í kvöld sem eru ekki góðar fréttir fyrir bakteríufjöldann í ánni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×