Fótbolti

Spán­verjar bættu við enn einu fót­bolta­gullinu í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gerard Hernandez, fyrirliði spænska liðsins, lyftir Evrópubikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna.
Gerard Hernandez, fyrirliði spænska liðsins, lyftir Evrópubikarnum við mikinn fögnuð liðsfélaga sinna. Getty/Seb Daly

Spænska nítján ára landsliðið í fótbolta varð í gær Evrópumeistari eftir sigur á Frökkum í úrslitaleiknum.

Spánn vann Frakkland 2-0 þar sem Iker Bravo og Assane Diao skoruðu mörkin. Bravo er leikmaður unglingaliðs Real Madrid en Diao spilar með Real Betis.

Spánverjar voru að vinna EM 19 ára landsliða í fyrsta sinn síðan 2019 þegar liðið vann Portúgal 2-0 í úrslitaleiknum. Þá skoraði Ferran Torres, leikmaður Barcelona, bæði mörkin.

Ítalir unnu EM U19 í fyrra og Englendingar þar á undan. Spánverjar hafa alls unnið þessa keppni tólf sinnum sem er met. England átti metið með Spáni fyrir sigurinn í gærkvöldi.

Sigur spænska landsliðsins í gær heldur líka áfram ótrúlegri sigurgöngu spænskra fótboltalandsliða í stórkeppnum síðustu ára.

Þetta þýðir nefnilega að spænsk landslið eru nú ríkjandi meistarar í níu keppnum í fótboltanum, fjórum hjá fullorðnum og fimm hjá yngri landsliðum.

Spænska A-landslið karla varð Evrópumeistari á dögunum og það vann einnig Þjóðadeildina í fyrra. Spænsku stelpurnar urðu heimsmeistarar í fyrra og þær unnu líka Þjóðadeildina.

Spánn er líka heimsmeistari hjá bæði tuttugu ára og sautján ára konum sem og Evrópumeistari hjá bæði sautján ára og nítján ára konum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×