Innlent

Hneykslast á á­kvörðun ríkis­sak­sóknara

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Bergþór og Jón Steinar eru sammála um það að Helgi Magnús eigi ekki skilið áminningu fyrir ummæli hans um innflytjendur og hjálparsamtökin Solaris.
Bergþór og Jón Steinar eru sammála um það að Helgi Magnús eigi ekki skilið áminningu fyrir ummæli hans um innflytjendur og hjálparsamtökin Solaris. vísir

Þingmenn og fyrrverandi hæstaréttardómari eru á meðal þeirra sem hneykslast á ákvörðun ríkissaksóknara, um að leggja til við ráðherra taka mál hans til skoðunar, og vísa honum tímabundið frá störfum.

„Okkur þykir blasa við að maður eins og Helgi Magnús í þessu tilviki, sem hefur setið undir hótunum árum saman gagnvart sér og sinni fjölskyldu, hlýtur að hafa rétt til þess að segja satt um það sem um ræðir,“ segir Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins. Hann og formaður flokksins hafa tjáð sig um málið og telja að Helga vegið. 

„Okkyr þykir það sem Helgi Magnús hefur sagt ekki í neinu samhengi réttlæta þá nálgun sem ríkissaksóknari virðist viðhafa núna gagnvart honum.“

Meðal þeirra ummæla sem Helgi Magnús hefur verið gagnrýndur fyrir að fleygja fram snúa að innflytjendur. Helgi Magnús sagði að verið sé að „flytja inn í stórum stíl menn sem gefa ekki mikið fyrir okkar samfélagsgerð og sáttmála“. 

Töldu ýmsir að með því væri Helgi Magnús að alhæfa um fólk af erlendum uppruna og ala á fordómum. Slíkt flokkist sem hatursorðræða og ekki væri hægt að treysta því að sama fólk nyti sannmælis og jafnræðis eftir ummæli Helga Magnúsar um að verið væri að „flytja inn ósiði“.

Spurður út í þessa umræðu um traust til starfa Helga segir Bergþór:

„Ég hef í sjálfu sér engar áhyggjur af því. Það er þannig að menn skipta með sér verkum í þessari stofnun, rétt eins og hjá dómstólum. Ég held því að það sé ekki alvöru vandamál í þessu samhengi, að slíkur ótti þurfi að vera uppi.“

Dómsmálaráðherra telur ekki við hæfi að hún tjái sig um erindi ríkissaksóknara varðandi tímabundna lausn Helga Magnúsar. Bergþór telur það augljóst hvernig Guðrún Hafsteinsdóttir ráðherra skuli bregðast við þessu erindi. 

„Augljóst að ráðherrann eigi að hafna þessari beiðni Sigríðar Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. Það væri eðlilegast, hvort sem litið er til þess lagaramma sem um þetta gildir. Eða þess að embættismenn njóta málfrelsis. Þessi tvö atriði eru nægjanleg til þess að hafna þessari beiðni ríkissaksóknara,“ segir Bergþór. Hann telur mikilvægt að taka umræðu inni á þingi um málfrelsi embættismanna.

Ekkert agavald

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari var sömuleiðis til viðtals í Reykjavík síðdegis þar sem hann sagði það illa vegið að Helga Magnúsi að leggja til að hann víki tímabundið frá störfum og taka mál hans til skoðunar. 

Hann sagði að ríkissaksóknari hefði ekki vald til þess að áminna vararíkissaksóknara, heldur ráðherra sem hefði skipað í bæði embættin.

„Ríkissaksóknari hefur ekkert agavald yfir honum. Þetta er nú bara stór þáttur í þessu máli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×