Enski boltinn

Staða Toney í upp­námi

Aron Guðmundsson skrifar
Ivan Toney í leik með Brentford á síðasta tímabili
Ivan Toney í leik með Brentford á síðasta tímabili Vísir/Getty

Staða enska framherjans Ivan Toney, sóknarmanns enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford, hefur gjörbreyst eftir að maðurinn sem félagið hafði hugsað sér sem arftaka hans meiddist á hné og verður lengi frá. 

Brasilíski framherjinn Igor Thiago var keyptur til Brentford frá belgíska félaginu Club Brugge núna í sumar á metfé, rúmar þrjátíu milljónir punda, en í æfingarleik liðsins gegn AFC Wimbeldon á dögunum meiddist hann á hné og hefur nú undirgengist skurðaðgerð í ferli við að takast á við þau meiðsli. 

Igor Thiago í leik með Brentford gegn AFC Wimbeldon á dögunumVísir/Getty

Nú tekur við endurhæfing í einhverja mánuði fyrir Thiago en meiðslin setja strik í reikningin varðandi stöðu enska landsliðsframherjans Ivan Toney sem búist var við að myndi yfirgefa herbúðir Brentford fyrir upphaf næsta tímabils.

Toney á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Brentford og hefur ekki merki þess efnis að vilja skrifa undir nýjan samning við félagið. 

Í stað þess að missa hann frá sér á frjálsri sölu eftir komandi tímabil má leiða að því líkur að forráðamenn Brentford hafi viljað reyna selja framherjann. 

Nú gæti Brentford hins vegar neyðst til að halda Toney lengur og hefja nýtt tímabil með honum í fjarveru Thiago. Toney á að baki 141 leik fyrir hönd Brentford og hefur í þeim leikjum skorað 72 mörk og gefið 23 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×