Íslenski boltinn

„Besta miðjan á landinu og væru fínar saman í lands­liðinu líka“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Rós Ágústsdóttir er búin að spila frábærlega á miðju Valsliðsins í sumar.
Berglind Rós Ágústsdóttir er búin að spila frábærlega á miðju Valsliðsins í sumar. Vísir/Anton

Valskonur komust á toppinn í Bestu deild kvenna í gærkvöldi eftir sigur í toppslagnum á móti Blikum. Bestu mörkin fóru yfir leikinn og frammistöðu Valskvenna.

„Sjáum bara pressuna hjá Valsliðinu í leiknum og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Blikarnir komust lítið áleiðis,“ sagði Mist Rúnarsdóttir, umsjónarmaður Bestu markanna.

„Berglind og Katie voru frábærar í þessum leik og þær eru frábærar. Þetta er besta miðjan á landinu og væru fínar saman í landsliðinu líka. Það er leitt að Katherine Cousins skuli ekki vera íslensk,“ sagði Katrín Ómarsdóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

Hún var þar að tala um Katherine Cousins og Berglindi Rós Ágústsdóttur, fyrirliða Valsliðsins. Cousins skoraði sigurmarkið í leiknum strax á níundu mínútu.

„Jasmín [Erla Ingadóttir] er þarna fyrir framan þær og hún er búin að spila ansi vel í sumar líka,“ sagði Mist.

„Mér fannst bara eins og Valsararnir kæmu hungraðri í þennan leik. Það var eins og þær vildu þetta meira eða Blikarnir hafi ekki verið klárar í þetta,“ sagði Sandra Sigurðardóttir, sérfræðingur í Bestu mörkunum.

„Það var líka tilfinningin sem maður fékk í síðustu umferð þegar Valur leit vel út en ekki Breiðablik. Við töluðum um það síðast að við hefðum smá áhyggjur af því að það vanti sjálfstraust í Blikaliðið,“ sagði Katrín.

Það má horfa á alla umræðuna um leik Vals og Blika hér fyrir neðan.

Klippa: „Berglind og Katie voru frábærar í þessum leik“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×