Fótbolti

Niður­brotin Marta gekk grátandi af velli

Aron Guðmundsson skrifar
Leikurinn gæti hafa verið sá síðasti á stórmóti hjá hinni mögnuðu Mörtu.
Leikurinn gæti hafa verið sá síðasti á stórmóti hjá hinni mögnuðu Mörtu. Vísir/Getty

Brasilíska knatt­spyrnu­goð­sögnin Marta gekk grátandi af velli eftir að hafa fengið að líta rauða spjaldið í leik Brasilíu gegn Spáni á Ólympíu­leikunum í París í gær. Leikurinn gæti hafa verið sá síðasti á glæstum lands­liðs­ferli Mörtu og var sá tvö­hundruðasti í röðinni hjá leik­manninum með brasilíska lands­liðinu.

Hin 38 ára gamla Marta , sem er marka­hæsti leik­maður brasilíska lands­liðsins frá upp­hafi, hefur áður gefið það út að þetta sé hennar síðasta ár með brasilíska lands­liðinu. Hún er nú á sínum sjö­ttu Ólympíu­leikum.

Í upp­bóta­tíma venju­legs leik­tíma í fyrri hálf­leik í leik Brasilíu gegn Spáni í C-riðli tók Marta glóru­lausa á­kvörðun þar sem að hún fór allt of hátt með vinstri fót sinn í ná­vígi við Olgu Car­monu, leik­mann spænska lands­liðsins.

Fótur Mörtu snerti höfuð Car­monu og var erfitt fyrir dómara leiksins að gera annað en að draga upp rauða spjaldið og reka Mörtu af velli.

Espen Eskas, dómari leiksins, gat lítið annað gert en að sýna Mörtu rauða spjaldið.Vísir/Getty

Marta varð gjör­sam­lega miður sín og gekk grátandi af velli inn til búnings­her­bergja í leik sem gæti hafa verið hennar síðasti fyrir brasilíska lands­liðið á stór­móti, jafn­vel síðasti leikurinn hennar yfir höfuð fyrir Brasilíu.

Staðan var marka­laus þegar að Marta var rekin af velli en ríkjandi heims­meistarar Spánar settu tvö mörk í seinni hálf­leik og fóru með 2-0 sigur af hólmi.

Marta var niðurbrotinVísir/Getty

Brasilía endaði í 3.sæti C-riðils en eftir sigur Banda­ríkjanna gegn Ástralíu seinna sama dag varð ljóst að Brasilía kæmist á­fram í átta liða úr­slit Ólympíu­leikanna sem eitt tveggja liða í þriðja sæti riðlanna með besta árangurinn.

Brasilía mun mæta heima­konum í franska lands­liðinu í átta liða úr­slitum Ólympíu­leikanna. Marta verður í banni í þeim leik og að­eins af Brasilíu tekst að vinna Frakk­land mun hún snúa aftur til leiks á leikunum í undan­úr­slitum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×