Arnar stýrði Val í síðasta sinn þegar liðið tapaði 4-1 fyrir St Mirren í seinni leiknum í 2. umferð Sambandsdeildar Evrópu í kvöld. Fyrri leikurinn fór 0-0.
Í kvöld sendi Valur svo frá sér tilkynningu þess efnis að Arnar hefði verið látinn fara frá félaginu.
„Þetta snýst ekki um einstaka úrslit eða leiki heldur er það einfaldlega mat okkar í stjórn að við séum ekki á réttri leið með liðið og því var þessi ákvörðun tekin. Við þökkum Adda fyrir allt það sem hann hefur gert síðan hann kom til okkar og óskum honum alls hins besta,“ segir Börkur Edvardsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.
Við starfi Arnars tekur Túfa en hann hefur skrifað undir þriggja ára samning við Val. Hann þekkir vel til hjá félaginu en hann var aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar þegar Valur varð Íslandsmeistari 2020.
„Túfa hefur þjálfað hjá okkur áður og skilaði þá titli. Hann er frábær þjálfari og flottur karakter sem hefur haldið tengslum við félagið eftir að hann fór að þjálfa erlendis. Strákarnir hans eru í Val og hann býr hérna í hverfinu. Okkur hlakkar til að vinna aftur með Túfa sem eftir dvöl sína í flottum klúbbum erlendis kemur til baka sem enn betri þjálfari,“ segir Börkur.
Síðan Túfa hætti hjá Val þjálfaði hann Öster og Skövde í Svíþjóð. Hann stýrði einnig KA á árunum 2015-18 og Grindavík 2019.
Arnar tók við Val fyrir síðasta tímabil. Undir stjórn enduðu Valsmenn í 2. sæti Bestu deildarinnar í fyrra. Valur er í 3. sæti deildarinnar sem stendur.
Túfa stýrir Val í fyrsta sinn þegar liðið mætir KA á Akureyri á þriðjudaginn.