Fótbolti

Nablinn söng og dansaði með Malaví strákunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andri Már Eggertsson, Nablinn, í stúkunni með Malaví strákunum á Rey Cup en allir voru þeir að hvetja áfram stúlknaliðið frá Malaví.
Andri Már Eggertsson, Nablinn, í stúkunni með Malaví strákunum á Rey Cup en allir voru þeir að hvetja áfram stúlknaliðið frá Malaví. S2 Sport

Alþjóðafótboltamótið Rey Cup fór fram í 24. skiptið í ár og Sumarmótin voru að sjálfsögðu á staðnum til að fylgjast með því sem fram fór.

Andri Már Eggertsson og myndatökumaður hans tóku upp efni sem var í nýjasta þættinum af Sumarmótunum á Stöð 2 Sport. Þar má að venju finna viðtal við þátttakendur, skipuleggjendur og góða gesti.

„Hér eru komin lið af dýrari gerðinni eins og Arsenal, Bayern München, Nordsjælland og að ógleymdum Þrótti Reykjavík. Við skulum hefja þessa alþjóðlegu veislu,“ sagði Andri Már Eggertsson í upphafi þáttar en við þekkjum hann best undir nafninu Nablinn.

Krakkarnir á mótinu voru að sjálfsögðu í sviðsljósinu en í þættinum má sjá þau sýna flott tilþrif inn á vellinum og mæta líka hress og glöð í viðtöl á milli leikja.

Slógu í gegn í fyrra

Lið knattspyrnuakademíunnar Ascent Soccer frá Malaví sló í gegn í fyrra og það þessu sinni kom stúlknalið á mótið.

„Þeir slógu í gegn í fyrra og vöktu mikla athygli. Það kom ekkert annað til greina að fá stelpurnar í ár og sjá hvort þeim myndi ganga jafnvel,“ sagði Gunnhildur Ásmundsdóttir, framkvæmdastjóri Rey Cup fótboltamótsins.

Hér fyrir neðan má sjá allan þáttinn og þar á meðal þegar Nablinn mætti í stúkuna með strákunum frá Malaví þar sem þeir voru að hvetja áfram malavíska stúlknaliðið. Þar var sungið og dansað og mikil stemning í gangi.

Klippa: Sumarmótin 2024: Þátturinn um Rey Cup



Fleiri fréttir

Sjá meira


×