Erlent

Enn einar ó­eirðirnar í Bret­landi í kjöl­far hnífa­á­rásarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Hægriöfgamenn hafa látið öllum illum látum eftir hnífstunguárásina í Southport í vikunni. Myndin er frá Hartlepool þar sem þeir kveiktu meðal annars í bílum.
Hægriöfgamenn hafa látið öllum illum látum eftir hnífstunguárásina í Southport í vikunni. Myndin er frá Hartlepool þar sem þeir kveiktu meðal annars í bílum. AP/Owen Humphreys/PA

Þrír lögreglumenn slösuðust og kveikt var í byggingum þegar hundruð manna stóðu fyrir óeirðum í borginni Sunderland á norðaustur Englandi í gærkvöldi. Óeirðir hafa brotist út í nokkrum borgum eftir að hnífamaður stakk þrjár ungar stúlkur til bana í Southport í vikunni.

Lögreglan í Norðymbralandi segir að lögreglumenn hafi staðið frammi fyrir alvarlegri ofbeldisógn í óeirðunum. Þrír þeirra voru fluttir á sjúkrahús vegna sára sinna, einn var útskrifaður fljótlega. Bjórdósum og múrsteinum var grýtt í lögreglumenn fyrir utan mosku og kveikt var í bílum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Átta óeirðarseggir voru handteknir eftir að þeir fóru ránshendi um lögreglustöð og kveikt var í ráðgjafarmiðstöð við hliðina á henni. 

Lögregla rannsakar hver stóð fyrir óeirðunum. BBC segir að frá skrílnum hafi heyrst niðrandi hróp um múslima og slagorð til stuðnings hægriöfgasamtökunum Enska varnarbandalagsins (EDL). Lewis Atkinson, þingmaður Verkamannaflokksins í Sunderland, sagði að fáni nýnasistaarms EDL hafi sést í uppþotunum í gær.

Til ofbeldisfullra óeirða hefur komið á nokkrum stöðum, þar á meðal í Southport, London og Manchester, í kjölfar falskra fullyrðinga um hnífstunguárásina í Southport á mánudag þar sem sautján ára piltur stakk fjölda barna með þeim afleiðingum að þrjár ungar stúlkur létust. 

Lygum hefur verið dreift um að árásarmaðurinn sé hælisleitandi og múslimi. Hann fæddist hins vegar í Cardiff í Wales. Dómari ákvað að heimila nafngreiningu á árásarmanninum til þess að stemma stigu við upplýsingafalsi þrátt fyrir að bresk lög banni almennt að nöfn sakborninga undir lögaldri séu gerð opinber.

BBC segist vita um að minnsta kosti þrjátíu fyrirhugaða mótmælafundi á vegum hægriöfgamanna vít og breytt um Bretland um helgina, þar á meðal í Southport.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×