Enski boltinn

Kveður Arsenal með hjart­næmu bréfi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emile Smith Rowe hefur spilað sinn síðasta leik með Arsenal en hann færir sig til í London og spilar með Fulham í vetur.
Emile Smith Rowe hefur spilað sinn síðasta leik með Arsenal en hann færir sig til í London og spilar með Fulham í vetur. Getty/Visionhaus

Fulham gekk í gær frá kaupunum á Arsenal manninum Emile Smith Rowe sem yfirgefur nú uppeldisfélagið sitt.

Smith Rowe hefur verið hjá Arsenal í fjórtán ár eða síðan hann var tíu ára gamall.

Fulham gerir Smith Rowe að dýrasta leikmanninum í sögu félagsins með því að borga fyrir hann 34 milljónir punda eða sex milljarða í íslenskum krónum.

Fulham fékk pening þegar það seldi Joao Palhinha til Bayern München fyrr í sumar og eyðir honum í leikmann sem gekk illa að fá mínútur hjá Arsenal.

Emile Smith Rowe tilkynntur til leiks á miðlum Fulham.@FulhamFC

Smith Rowe er annar leikmaðurinn sem kemur til liðsins en Ryan Sessegnon kom þangað á frjálsri sölu frá Tottenham.

Erfitt bréf að skrifa

Smith Rowe kveður Arsenal með hjartnæmu bréfi á samfélagmiðlum.

„Til allra í Arsenal fjölskyldunni. Ég var ekki viss um hvar ég ætti að byrja því þetta er erfiðasta bréfið sem ég þurft að skrifa,“ skrifaði Emile Smith Rowe.

„Ég var tíu ára gamall þegar ég kom til félagsins, bara stráklingur sem hafði enga hugmynd hvernig það væri að spila yfir hundrað leiki fyrir Arsenal og klæðast hinni goðsagnakenndu treyju númer tíu hjá félaginu,“ skrifaði Smith Rowe.

„Ég fengið að upplifa svo margt hérna, hitt og spilað með þeim bestu og það eru svo margar góðar minningar að það er erfitt að velja þær bestu ,“ skrifaði Smith Rowe.

Heimili mitt

Hann þakkar fyrrum liðsfélögum sínum sem öllum starfsmönnum félagsins sem hafa hjálpað honum á þessu ferðalagi.

„Ég vil líka þakka sérstaklega öllum stuðningsmönnunum sem hafa gert Arsenal að heimili mínu í svo langan tíma,“ skrifaði Smith Rowe.

„Ég er tilbúinn í nýja áskorun núna. Ég hungraðri en nokkru sinnum fyrr og verð að gefa mér tækifæri á því að taka næsta skref. Ég vil þakka Arsenal fjölskyldunni enn og aftur og ég kann að meta ykkur öll um ókomna tíð,“ skrifaði Smith Rowe.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×