Atletico Madrid borgar Villarreal 32 milljónir evra fyrir leikmanninn eða 4,8 milljarða íslenskra króna. Sörloth skrifar undir fjögurra ára samning eða til ársins 2028.
Norski knattspyrnusérfræðingurinn Petter Veland er á því að þetta séu þriðju stærstu félagsskipti hjá norskum knattspyrnumanni á eftir félagsskiptum Erling Braut Haaland til Manchester City og Martin Ødegaard til Arsenal.
Sörloth spilaði bara eitt tímabil með Villarreal en það var eftirminnilegt. Hann skoraði 23 mörk í 34 leikjum og varð næstamarkahæsti maður spænsku deildarinnar.
Sörloth skoraði meðal annars fernu í 4-4 jafntefli á móti Real Madrid sem á örugglega stóran þátt í áhuga Atletico manna á honum. Það ætti líka að skila honum vinsældum hjá stuðningsmönnum Atletico.
Þetta verður níunda félagið á ferlinum hjá þessum 28 ára gamla leikmanni sem hefur spilað í Hollandi, Danmörku, Englandi, Belgíu, Tyrklandi, Þýskalandi og Spáni síðan hann yfirgaf Rosenborg árið 2016.
Hann hefur skorað 18 mörk í 53 landsleikjum fyrir Noreg.
🇳🇴 ¡Alexander Sørloth ya es rojiblanco! ❤️🤍 pic.twitter.com/AoohkcWV7J
— Atlético de Madrid (@Atleti) August 3, 2024