Golf

Grét þegar hann missti af medalíu og undan­þágu frá her­skyldu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Tom Kim var ekki langt frá því að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikunum.
Tom Kim var ekki langt frá því að komast á verðlaunapall á Ólympíuleikunum. getty/Kevin C. Cox

Suður-kóreski kylfingurinn Tom Kim var afar vonsvikinn og felldi tár þegar hann komst ekki á verðlaunapall á Ólympíuleikunum í París. Hann missti ekki bara af medalíu heldur einnig undanþágu frá herþjónustu í heimalandinu.

Kim lék vel á Ólympíuleikunum og lék hringina fjóra á samtals þrettán höggum undir pari. Hann endaði í 8. sæti og var fjórum höggum frá verðlaunasæti.

Myndir náðust af Kim í klúbbhúsinu þar sem hann brynnti músum. Ef hann hefði komist á pall hefði hann nefnilega sloppið við að gegna herþjónustu í Suður-Kóreu.

Samkvæmt lögum í Suður-Kóreu þurfa allir karlmenn að gegna herþjónustu í 18-21 mánuð áður en þeir verða 28 ára. Sumir geta fengið undanþágu vegna líkamlegra eða andlegra kvilla og þá senda ríkar fjölskyldur oft börn sín í skóla erlendis til að fá tvöfaldan ríkisborgararétt og sleppa þar með við herskylduna.

Þeir sem vinna til verðlauna á Ólympíuleikum eða gull á Asíuleikum þurfa heldur ekki að fara í herinn.

Kim gæti enn sloppið við að gegna herþjónustu ef hann vinnur Asíuleikana eftir tvö ár eða til verðlauna á Ólympíuleikunum í Los Angeles eftir fjögur ár.

Hinn 22 ára Kim hefur unnið þrjú mót á PGA-mótaröðinni og varð annar á Opna breska meistaramótinu í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×