Fótbolti

Gallagher sam­þykkir að fara til Atlético Madrid

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Conor Gallagher er á leið til Spánar.
Conor Gallagher er á leið til Spánar. Dan Mullan/Getty Images

Enski landsliðsmaðurinn Conor Gallagher er á leið til spænska úrvalsdeildarfélagsins Atlético Madrid frá Chelsea.

Chelsea hafði áður samþykkt 33 milljón punda tilboð Madrídarliðsins í Gallagher, en talið var að launakröfur miðjumannsins gætu fælt Atlético Madrid frá því að klára kaupin.

Gallagher tjáði þó forráðamönnum Atlético Madrid í gær, sunnudag, að hann væri tilbúinn að færa sig um set. Búist er við því að Gallagher fljúgi til Madrídar og gangist undir læknisskoðun á næstu dögum áður en hann skrifar að lokum undir samning við félagið.

Áður hafði Gallagher neitað nýju samningstilboði frá Chelsea í tvígang. Þessi 24 ára gamli miðjumaður hefur verið hjá félaginu frá árinu 2008, en Chelsea bauð honum að skrifa undir nýjan tveggja ára samning með möguleika á árs framlengingu. 

Alls hefur Gallagher leikið 95 leiki fyrir Chelsea í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað tíu mörk og lagt upp önnur tíu fyrir liðsfélaga sína. Þá á hann einnig að baki 18 leiki fyrir enska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×