Fótbolti

Nýjasti leik­maður Manchester United missir af fyrstu mánuðum tíma­bilsins

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Leny Yoro verður lengi frá keppni.
Leny Yoro verður lengi frá keppni. Joe Prior/Visionhaus via Getty Images

Varnarmaðurinn Leny Yoro, leikmaður Manchester United, mun missa af fyrstu mánuðum ensku úrvalsdeildarinnar vegna meiðsla.

Yoro gekk í raðir United þann 18. júlí síðastliðinn frá Lille fyrir um 52,2 milljónir punda. Sú upphæð getur þó farið upp í um 59 milljónir punda með árangurstengdum bónusgreiðslum, en það samsvarar um 10,4 milljörðum íslenskra króna.

Hinn 18 ára gamli Yoro mun þó ekki getað tekið þátt í fyrstu leikjum United á komandi tímabili. Félagið greindi frá því á heimasíðu sinni fyrr í kvöld að miðvörðurinn hafi gengist undir aðgerð á fæti og verður hann því frá keppni næstu mánuðina.

Yoro meiddist í æfingaleik gegn Arsenal í síðasta mánuði og talið er að hann verði frá keppni næstu þrjá mánuðina.

„Endurhæfing Yoro hefst núna og við hlökkum til að fá þennan 18 ára gamla leikmann til baka eftir um það bil þrjá máuði," segir á heimasíðu United.

Manchester United tekur á móti Fulham í opnunarleik ensku úrvalsdeildarinnar þann 16. ágúst næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×