Upp­gjörið: KA - Valur 1-0 | Viðar Örn skemmdi partýið hjá nýja þjálfarnum

Árni Gísli Magnússon skrifar
Viðar Örn Kjartansson skoraði eina mark leiksins
Viðar Örn Kjartansson skoraði eina mark leiksins Vísir/Anton Brink

KA sigraði Val 1-0 í 17. umferð Bestu deildar karla á Greifavellinum fyrr í kvöld í fyrsta leik Srdjan Tufegzdic sem þjálfara Vals.

Viðar Örn Kjartansson skoraði eina mark leiksins undir lok fyrri hálfleiks. Norðanmenn eru nú ósigraðir í 8 leikjum í röð í deild og bikar og styttist bilið í efri hlutann óðum þó liðið sitji enn í áttunda sæti. Valur er áfram í þriðja sæti en draumar um Íslandsmeistaratitlinn hafa dvínað verulega.

Heimamenn voru nálægt því að komast yfir strax á annarri mínútu þegar Daníel Hafsteinsson fékk boltann skyndilega við markteig Valsmanna en setti boltann yfir.

Eftir rúmar 20 mínútur voru Valsmenn óheppnir að ná ekki forystunni þegar Tryggvi Hrafn átti frábært skot sem Steinþór Már varði meistaralega og Jónatan Ingi setti svo boltann yfir úr kjörstöðu inn við markteig.

Örfáum mínútum síðar átti Tryggvi Hrafn aftur skot en nú í varnarmann og Bjarni Mark fékk frákastið og læt vaða fyrir utan teig en Steinþór Már varði vel.

Eftir þetta róaðist leikurinn mjög mikið og lítið sem ekkert markvert gerðist þangað til komið var rétt fram yfir venjulegan leiktíma. Valsmenn áttu þá slaka hreinsun úr teignum og Daníel Hafsteinsson tók skotið í fyrsta sem rataði beint á Viðar Örn, sem var á leið úr rangstöðunni, og Viðar stýrði boltanum laglega í netið og tryggði KA forystu inn í síðari hálfleik.

Valsliðið kom ákveðnara út í síðari hálfleik en færin voru að skornum skammti beggja vegna. Á 59. mínútu dró til tíðinda en Viðar Örn fékk þá hárfína sendingu inn fyrir og Frederik Schram, markaður Vals, kom á fleygiferð á móti honum en Viðar tók boltann til vinstri fram hjá Fredrik sem sparkaði Viðar niður rétt utan við vítateig. Viðar átti í raun bara eftir að setja boltann í tómt markið og fór því rauða spjaldið réttilega á loft og Valsmenn einum færri.

Ögmundur Kristinsson kom inn á í markið, ekki slæmt að eiga slíkan markmann á bekknum. Hallgrímur Mar tók aukaspyrnuna og þrumaði boltanum í slána. KA menn óheppnir að vera ekki komnir tveimur mörkum yfir.

Valsmenn héldu meira í boltann út leikinn þrátt fyrir að vera færri en náðu ekki að skapa sér mikið gegn skipulögðu KA liði sem lagðist aðeins til baka restina af leiknum.

Dýrmætur 1-0 sigur KA staðreynd og bjartari tímar virðast vera framundan á brekkunni.

Atvik leiksins

Markið hjá Viðari Erni. Alvöru framherja mark þar sem hann er rétt svo kominn úr rangstöðunni og rekur svo löppina í boltann og stýrir honum í netið.

Stjörnur og skúrkar

Viðar Örn átti mjög góðan leik í dag þangað til hann fór af velli vegna meiðsla. Skoraði sigurmarkið og setti boltann aftur í netið en var dæmdur rangstæður.

Jakob Snær hljóp að venju eins og óður maður og skilaði frábærri vinnu í vörn sem sókn.

Aftasta lína KA á skilið hrós í heild sinni og tek ég þar Hans Viktor Guðmundsson út fyrir sviga en hann átti virkilega agaða frammistöðu.

Tryggvi Hrafn var manna frískastur hjá Val og í raun óheppinn að skora ekki.

Það leyndi sér ekki að Gylfi Þór Sigurðsson gekk ekki heill til skógar í dag en hann komst alltof lítið í boltann

Frederik Schram verður að taka skúrkstitilinn á sig eftir að hafa fengið rautt spjald. Ögmundur Kristinsson kom inn í hans stað og mun því byrja næsta leik þar sem Frederik tekur út bann og er þetta því kjörið tækifæri fyrir hann til að hirða byrjunarliðssætið en Frederik yfirgefur Val eftir tímabilið.

Dómarinn

Jóhann Ingi átti fínan leik í dag. Rauða spjaldið var hárréttur dómur en í nokkur skipti fannst mér hann geta sleppt því gula.

Stemning og umgjörð

Það var vel mætt á völlinn en stúkan vaknaði ekki almennilega fyrr en undir lok leiks þegar sigurinn nálgaðist.

„Getum við leyft okkur að horfa upp á við”

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KAVísir/Pawel

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var stoltur af frammistöðu liðsins eftir 1-0 sigur gegn Val á heimavelli og þorir að horfa á upp við. Liðið hefur nú ekki tapað í 8 leikjum í röð í deild og bikar og nálgast efri hluta deildarinnar.

„Ég er virkilega ánægður. Þetta var frábær liðsframmistaða og mér fannst þetta bara verðskuldaður sigur. Skoruðum mark og þau hefðu getað verið fleiri, þeir taka okkur niður þegar við erum komnir í gegn, þannig bara sterkur sigur, flott liðsframmistaða og karakter hjá strákunum. Það er það sem ég bað þá um fyrir leikinn því að fyrri hálfleikurinn á móti KR var ekki nógu góður. Ég sagði þeim að sýna mér í dag að þeir gætu spilað 90 mínútur á alvöru stigi og það var kveikt á því í dag þannig ég er virkilega ánægður með strákana og áhorfendurnar.

KA liðið féll neðar á völlinn eftir að Valur missti mann af velli með rautt spjald og hefði mögulega getað nýtt sér liðsmuninn betur.

„Varnarfærslurnar voru fínar og allt en ég hefði viljað sjá okkur þegar við vinnum boltann halda aðeins betur í hann. Við erum orðið það þroskað lið að einum fleiri á heimavelli, þegar við látum boltann ganga úr fyrst pressu er allt opið. Ég hefði viljað sjá fleiri augnablik þannig en þetta gerist bara sjálfkrafa og þeir svo sem skapa sér ekkert stórkostlegt þannig ég vona að við getum aðeins þroskast og þorað meira þegar við erum með forystu og það er bara eitthvað sem við vinnum í. Það breytir því ekki að sigurinn var virkilega góður, erum að mæta frábæru liði og mér fannst við gera betur í seinni hálfleik að setja pressu á boltamanninn, í fyrri hálfleik vantaði aðeins upp það og þeir gátu fundið góðar sendingar og skapað tvö góð færi. Sem betur fer þá skoruðu þeir ekki og eins og ég segi; við skoruðum mark og hefðum getað skorað fleiri.”

KA er í 8.sæti, einungis tveimur stigum frá ÍA sem er því sjötta en á þó leik til góða, og norðanmenn því líklega farnir að horfa í efri hlutann.

„Núna getum við leyft okkur að horfa upp á við og ef menn eru með þetta hugarfar, að vinna fyrir hvorn annan, þá erum við bara hörku gott lið, þegar við slökum á erum við það ekki. Ef þetta er það sem við leggjum í leikina þá þori ég að horfa upp á við.”

Jakob Snær Árnason átti góðan leik í dag og er kominn á fullt skrið eftir að hafa glímt við meiðsli fyrri hluta móts.

„Hann er bara æðislegur leikmaður, leggur sig mikið fram, fljótur og mikill liðsmaður. Hann stóð sig vel í dag eins og allt liðið og ég er bara ótrúlega ánægður með liðið. Leiðinlegt að Viðar (Örn Kjartansson) hafi fengið smá aftan í læri, en annars voru allir klárir fyrir þennan leik. Þú sérð það að menn fara í skóla og detta úr liðinu og einhverjir úr hóp en við stöndum bara eftir ótrúlega sterkir og við erum það þegar við stöndum saman.”

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira