Sport

Ingebrigtsen missti þrjá fram úr sér og komst ekki á pall

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Cole Hocker fagnar sigrinum í kvöld.
Cole Hocker fagnar sigrinum í kvöld. Michael Steele/Getty Images

Norski hlauparinn Jakob Ingebrigtsen náði ekki að verja Ólympíumeistaratitil sinn í 1500 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París í kvöld.

Ingebrigtsen tryggði sér sigur á Ólympíuleikunum í Tókýó árið 2021 þegar hann kom fyrstur í mark á nýju Ólympíumeti, á tímanum 3:28,32.

Hann setti tóninn snemma í hlaupi kvöldsins og tók forystuna strax í upphafi. Eins og svo oft áður vildi Ingebrigtsen leiða hlaupið, auka hraðann jafnt og þétt og skilja þannig keppinauta sína eftir.

Það upplegg gekk þó ekki upp í kvöld. Bandaríkjamennirnir Cole Hocker og Yared Nuguse, ásamt Bretanum Josh Kerr, héldu í við Ingebrigtsen allan tímann.

Á síðustu metrunum virtist Ingebrigtsen vera orðinn bensínlaus. Josh Kerr sigldi fram úr honum á utanverðunni og á sama tíma nýtti Cole Hocker sér tækifærið og fór fram úr þeim báðum á innanverðunni. Yared Nuguse fór einni fram úr Norðmanninum áður en þeir komu í mark og Ingebrigtsen missti þar með af sæti á verðlaunapalli.

Hocker kom hins vegar fyrstur í mark á nýju Ólympíumeti, tímanum 3:27,65. Raunar komu fremstu fjórir allir í mark á betri tíma en Ólympíumetið sem Ingebrigtsen setti árið 2021, en Kerr varð annar á 3:27,79, Nuguse þriðji á 3:27,80 og Ingebrigtsen fjórði á 3:28,24.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×