Sport

Sá fyrsti í sögunni til að vinna fimm Ólympíugull í sömu greininni

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mijain López var að taka þátt á sínum sjöttu Ólympíuleikum. Fimm sinnum hefur hann tekið gullið heim.
Mijain López var að taka þátt á sínum sjöttu Ólympíuleikum. Fimm sinnum hefur hann tekið gullið heim. Ezra Shaw/Getty Images

Kúbverski glímukappinn Mijaín López skráði sig í kvöld á spjöld sögunnar þegar hann vann sitt fimmta Ólympíugull í röð.

López vann öruggan 5-0 sigur gegn Sílemanninum Yasmani Acosta í úrslitaeinvíginu í kvöld og tryggði sér þar með sigur í 130 kg flokki í grísk-rómverskri glímu.

López, sem er orðinn 41 árs gamall, var að taka þátt á sínum sjöttu Ólympíleikum, en hann tók fyrst þátt árið 2004 í Aþenu. Hann vann svo sitt fyrsta Ólympíugull árið 2008 í Pekíng í 120 kg flokki, og gerði slíkt hið sama árið 2012 í London.

Árið 2016 í Río og 2021 í Tókýó varð López svo Ólympíumeistari í 130 kg flokki. Hann bætti þriðja Ólympíugullinu við í 130 kg flokki í kvöld og því fimmta í greininni. Hann varð þar með fyrsti íþróttamaðurinn í sögunni til að vinna til fimm gullverðlauna í sömu einstaklingsgreininni.

Óhætt er að segja að López hafi haft yfirburði í greininni undanfarin ár, og það er ekki að ástæðulausu að flestir telji hann besta glímumann allra tíma.

Á löngum og farsælum ferli sínum hefur hann unnið til 38 verðlauna og eru flest þeirra gullverðlaun. Alls hefur hann unnið til 33 gullverðlauna, þar af hefur hann unnið fimm Ólympíugull og fimm sinnum hefur hann orðið heimsmeistari, ásamt því að hafa orðið heimsbikarmeistari í þrígang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×