Erlent

Walz sniðugur veiði­maður sem höfði til karla á miðjum aldri

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Hann er veiðimaður og skemmtilegur í viðtölum. Hann er svolítið sniðugur,“ segir Friðjón um Walz.
„Hann er veiðimaður og skemmtilegur í viðtölum. Hann er svolítið sniðugur,“ segir Friðjón um Walz. EPA/Vísir/Vilhelm

Það á eftir að koma í ljós hvort Tim Walz, ríkisstjóri Minnesotaríkis og varaforsetaefni Kamölu Harris forsetaframbjóðanda Demókrata í Bandaríkjunum sé betra val en Josh Shapiro, ríkisstjóri Pennsylvaníuríkis, en þeir tveir höfðu komið helst til greina. 

Þetta sagði Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi og áhugamaður um bandarísk stjórnmál, í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Hann er frá miðvesturríkjunum og hann höfðar til karla á miðjum aldri. Hann er veiðimaður og skemmtilegur í viðtölum. Hann er svolítið sniðugur,“ sagði Friðjón um Walz.

Hann er þó ekki viss um að val Kamölu muni skipta sköpum í kosningabaráttu hennar gegn Donald Trump, þar sem að varaforsetar hafi almennt ekki mikil áhrif.

„Valið sýnir samt dómgreind forsetaefnisins, og hvert hún er að stefna. Hún er augljóslega að horfa til þess að Demókratar þurfa Pennsylvaníu, Michigan og Wisconsin. Og Walz getur höfðað til kjósenda í þeim ríkjum.“

Undanfarið hafa Demókratar tekið upp á því að kalla Donald Trump og meðlimi Repúblikanaflokksins „skrýtna“. Walz er sagður upphafsmaður þess.

Er þetta góð taktík að þínu mati?

„Já, hún hefur allavega virkað fyrir hann. Hann er orðinn varaforsetaefni. Hann vakti athygli með þessu. Þetta er pínu fyndið. Ég meina, þeir eru skrýtnir, allavegana skoðanir þeirra, finnst mér,“ segir Friðjón.

„Þetta er ekki bein árás. Leiðin til að draga fram eitthvað sem fólki líkar ekki við hjá andstæðingnum er oft að gera grín að þeim frekar en að fara í beina árás.“

Friðjón segir erfitt að spá fyrir um úrslit kosninganna vestanhafs að svo stöddu. Skoðanakannanir séu hnífjafnar.

„En Kamala Harris og Demókratar eru í sókn og Trump er í vörn.“

Sjálfur segist hann alls ekki vilja sjá að Donald Trump verði aftur forseti Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×