Erlent

Segir rétt­lætan­legt og sið­ferði­lega verjandi að svelta í­búa Gasa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bezalel tilheyrir þeim öflum innan ríkisstjórn Benjamin Netanyahu sem hafa verið síst viljug til sátta.
Bezalel tilheyrir þeim öflum innan ríkisstjórn Benjamin Netanyahu sem hafa verið síst viljug til sátta. Getty/LightRocket/SOPA Images/Saeed Qaq

Evrópusambandið og stjórnvöld í Bretlandi og Frakklandi hafa fordæmt ummæli Bezalel Smotrich, fjármálaráðherra Ísrael, sem sagði í ræðu í vikunni að það kynni að vera réttlætanlegt og siðferðilega verjandi að svelta íbúa Gasa.

„Enginn í heiminum mun leyfa okkur að svelta tvær milljónir manna, jafnvel þótt það kunni að vera réttlætanlegt og siðferðilega verjandi í þeim tilgangi að frelsa gíslana,“ sagði Smotrich.

Þá sagði hann Ísraela tilneydda til að sjá íbúum Gasa fyrir mannúðaraðstoð, þar sem þeir þyrftu að fara að alþjóðalögum til að geta haldið stríðsrekstri sínum áfram.

Ummælin hafa vakið hörð viðbrögð en Evrópusambandið minnti á að það að svelta almenna borgara væri stríðsglæpur. Þá sagðist sambandið gera ráð fyrir að stjórnvöld í Ísrael höfnuðu málflutningi ráðherrans.

David Lammy, utanríkisráðherra Breta, kallaði eftir því að stjórnvöld í Ísrael fordæmdu og drægju orð Smotrich til baka og þá ítrekuðu stjórnvöld í Frakklandi að það væri skylda Ísraelsmanna að sjá íbúum Gasa fyrir mannúðaraðstoð, þar sem þau réðu öllum leiðum inn og út af svæðinu.

Stjórnvöld í Ísrael hafa ekki brugðist við en þau eru einnig undir þrýstingi, meðal annars frá Bandaríkjunum, um að rannsaka ásakanir um kynferðisofbeldi gegn palestínskum föngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×