Sport

Vann brons með Covid

Smári Jökull Jónsson skrifar
Lyles fór í hjólastól af hlaupabrautinni í kvöld.
Lyles fór í hjólastól af hlaupabrautinni í kvöld. Vísir/Getty

Bandaríkjamaðurinn Noah Lyles vann til bronsverðlauna í 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í París. Lyles sagði frá því eftir hlaupið að hann hefði greinst með Covid í vikunni.

Noah Lyles var talinn sigurstranglegur í 200 metra hlaupi karla fyrir Ólympíuleikana og ekki minnkuðu væntingarnar eftir að hann vann gullverðlaun í 100 metra hlaupinu á sunnudaginn.

Hlaupið var til úrslita í 200 metra hlaupinu í kvöld og þar kom Lyles þriðji í mark og fær því bronsverðlaunin. Letsile Tebogo frá Botswana vann gullið á 19,46 sekúndum og Bandaríkjamaðurinn Kenneth Bednarek varð þriðji á 19,62.

Eftir hlaupið greindi Lyles frá því að hann hefði greinst með Covid á þriðjudaginn, tveimur dögum eftir að hafa unnið gullið í 100 metra hlaupinu.

„Ég vaknaði klukkan fimm um morguninn á þriðjudagsmorgun og mér leið hræðilega, ég vissi að þetta væri eitthvað meira en að ég væri bara aumur eftir 100 metra hlaupið. Ég vakti læknana og við tókum próf, því miður greindist ég jákvæður fyrir kórónuveirunni,“ sagði Lyles í samtali við CNN.

Hann bætti við að hans fyrsta hugsun hefði verið að stressa sig ekki um of. Hann sagðist hafa hlaupið í verra ástandi og væri stoltur af sinni frammistöðu.

„Við tókum þetta dag fyrir dag, ég reyndi að drekka eins mikið og ég gat og fór í einangrun. Þetta tók samt sinn toll. Ég hef aldrei verið jafn stoltur af sjálfum mér að mæta hingað og ná bronsverðlaunum sem ég var svekktur með á síðustu leikum. Nú gæti ég ekki verið stoltari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×