Enski boltinn

Carsley tekur tíma­bundið við enska lands­liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lee Carsley er tekinn við enska landsliðinu til bráðabirgða.
Lee Carsley er tekinn við enska landsliðinu til bráðabirgða. getty/Michael Regan

Eins og við var búist hefur Lee Carsley verið ráðinn þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta til bráðabirgða.

Carsley mun stýra enska liðinu gegn Írlandi og Finnlandi í B-deild Þjóðadeildarinnar í næsta mánuði. Í tilkynningu enska knattspyrnusambandsins segir að Carsley gæti jafnvel stýrt enska liðinu í öllum haustleikjunum í Þjóðadeildinni.

Hinn fimmtugi Carsley hefur stýrt U-21 árs landsliði Englands undanfarin þrjú ár. Undir hans stjórn urðu Englendingar Evrópumeistarar í fyrra en meðal leikmanna í því liði voru Cole Palmer og Anthony Gordon sem eru núna í A-landsliðinu.

Gareth Southgate hætti sem landsliðsþjálfari Englands eftir EM þar sem liðið endaði í 2. sæti. Hann stýrði Englendingum í átta ár og kom þeim tvisvar í úrslit á EM.

Carsley stýrir Englandi í fyrsta sinn gegn heimalandi sínu, Írlandi, 7. september. Það verður einnig fyrsti leikur írska liðsins undir stjórn Heimis Hallgrímssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×