Erlent

USS Abra­ham Lincoln skipað að flýta för sinni til Mið-Austurlanda

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Varnarmálaráðherrann Lloyd Austin hefur ákveðið að stórauka viðbúnað Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum.
Varnarmálaráðherrann Lloyd Austin hefur ákveðið að stórauka viðbúnað Bandaríkjanna í Mið-Austurlöndum. Getty/Alex Wong

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefur skipað flugmóðurskipinu USS Abraham Lincoln, sem ber meðal annars F-35 herþotur, að hraða för sinni til Mið-Austurlanda vegna áhyggja af árás Íran á Ísrael.

Þá hefur hann sent kafbát búinn stýriflaugum á svæðið.

Guardian hefur eftir sérfræðingum að það sé fátítt að varnarmálayfirvöld vestanhafs greini frá ákvörðunum um að senda kafbáta á vettvang.

Stjórnvöld höfðu áður greint frá því að þau myndu auka viðbúnað á svæðinu vegna aukinnar spennu í kjölfar drápsins á Ismail Haniyeh, pólitískum leiðtoga Hamas, sem ráðinn var af dögum í Tehran.

Íranir, auk Hamas, hafa hótað hefndum en Ísraelar hafa enn ekki lýst ábyrgðinni á hendur sér.

Yfirvöld í Bandaríkjunum, Egyptalandi og Katar, sem hafa átt milligöngu í viðræðum Ísrael og Hamas um vopnahlé á Gasa, kölluðu eftir því á föstudag að viðræðurnar yrðu hafnar á ný. Ísraelsmenn hafa gefið til kynna að þeir séu reiðubúnir til að setjast niður að samningaborðinu en óvissa er uppi um Hamas.

Samtökin sendu frá sér tilkynningu í gær þar sem sagði að leggja ætti fram áætlun um að ná fram því samkomulagi sem var til umræðu í síðasta mánuði og byggði á tillögum Bandaríkjamanna, í stað þess að hefja enn eina samningalotuna.

Þúsundir flúðu Khan Younis um helgina eftir að Ísraelsmenn greindu frá fyrirhugaðri aðgerð gegn Hamas-liðum í borginni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×