Enski boltinn

Hafnar Liverpool og fé­lagið aftur á núll­punkti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Zubimendi vildi á endanum ekki koma til Liverpool. Hér sést hann í úrslitaleik Evrópumótsins í sumar.
Martin Zubimendi vildi á endanum ekki koma til Liverpool. Hér sést hann í úrslitaleik Evrópumótsins í sumar. Getty/ANP

Stuðningsmenn Liverpool voru flestir fullvissir um að félagið þeirra væri loksins búið að finna fyrstu kaup sumarsins en á endanum vildi sá hinn sami ekki koma til félagsins.

Erlendir miðlar eins og BBC segja frá því að spænski miðjumaðurinn Martin Zubimendi hafi hafnað tilboði Liverpool en þess í stað fengið nýjan samning hjá uppeldisfélaginu sínu Real Sociedad.

Liverpool vissi ekki betur en að Zubimendi vildi koma en á endanum tókst spænska félaginu hans að sannfæra hann um að vera áfram alveg eins og þegar bæði Bayern München og Arsenal sýndu honum áhuga á síðustu árum.

Launatilboð Liverpool var hærra en það sem Sociedad bauð en það var ekki nóg. Þetta er því enn eitt dæmið um það að öflugir leikmenn vilja ekki koma til félagsins en önnur dæmi eru Tchouaméni, Bellingham, Lavia og Caicedo á síðustu árum.

Zubimendi er 25 ára gamall og var varamaður Rodri í spænska landsliðinu. Hann kom inn á sem varamaður í hálfleik þegar Spánverjar tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í sumar.

Zubimendi var ætlað að fylla stöðu djúps miðjumanns hjá Liverpool en nú er félagið aftur á núllpunkti í þeirri leit.

Liverpool er eina félagið í ensku úrvalsdeildinni sem hefur ekki keypt leikmann í sumar en fyrsti leikur liðsins á nýju tímabili er á móti nýliðum Ipswich um næstu helgi.

Arne Slot þarf því að nota einn af núverandi miðjumönnum liðsins í stöðuna. Líklegast er að það verði Ryan Gravenberch en aðrir sem koma til greina eru Curtis Jones, Dominic Szoboszlai, Trent Alexander-Arnold og Wataru Endo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×