Enski boltinn

Seldu Wan-Bissaka fyrir þre­falt lægra verð

Sindri Sverrisson skrifar
Aaron Wan-Bissaka í leik með United á undirbúningstímabilinu. Nú er orðið ljóst að hann spilar með West Ham næstu árin.
Aaron Wan-Bissaka í leik með United á undirbúningstímabilinu. Nú er orðið ljóst að hann spilar með West Ham næstu árin. Getty/Grant Halverson

Enski bakvörðurinn Aaron Wan-Bissaka var í dag kynntur sem nýr leikmaður West Ham en Lundúnafélagið keypti hann frá Manchester United fyrir 15 milljónir punda, eða jafnvirði rúmlega 2,6 milljarða króna.

Wan-Bissaka, sem er 26 ára gamall, skrifaði undir samning til sjö ára við Harmana eftir að hafa verið hjá United síðustu fimm ár. Hann mætti á Old Trafford frá Crystal Palace og var kaupverðið 50 milljónir punda, eða meira en þrefalt hærra en það sem United fær núna fyrir kappann. Hann skoraði tvö mörk í 190 leikjum fyrir United.

Wan-Bissaka er áttundi leikmaðurinn sem West Ham fær í sumar en félagið hefur til að mynda sótt þýska landsliðsframherjann Niclas Füllkrug frá Dortmund og enska varnarmanninn Max Kilman frá Úlfunum. Kantmennirnir Luis Guilherme frá Palmeiras og Crysencio Summerville frá Leeds hafa einnig komið, sem og Guido Rodríguez og Wes Foderingham sem komu frítt frá Real Betis og Sheffield United.

Wan-Bissaka er fæddur í Lundúnum og sagði það ótrúlega góða tilfinningu að snúa aftur til höfuðborgarinnar. United seldi hann eftir að hafa tryggt sér krafta marokkóska bakvarðarins Noussair Mazraoui frá Bayern München sem ætla má að verði kynntur til leiks á Old Trafford innan skamms. 

West Ham byrjar tímabil sitt í ensku úrvalsdeildinni á því að mæta Aston Villa á laugardaginn en United spilar við Fulham á föstudagskvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×