Menning

For­stöðu­maðurinn fannst í Salnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Axel Ingi Árnason mun stýra gangi mála í Salnum næstu fimm árin.
Axel Ingi Árnason mun stýra gangi mála í Salnum næstu fimm árin. Kópavogur

Axel Ingi Árnason hefur verið ráðinn forstöðumaður Salarins í Kópavogi. Hann hefur starfað hjá Salnum frá árinu 2022. Tæpt ár er síðan forstöðumaður Salarins til tólf ára lét af störfum og gagnrýndi áhugaleysi meirihlutans í bæjarfélaginu á starfseminni.

Aino Freyja Jarvela var ráðin forstöðumaður Salarins árið 2011 en lét af störfum í fyrrahaust. Við það tilefni sagði hún í viðtali í Morgunblaðinu að meirihluti bæjarstjórnar Kópavogs sýndi starfsemi Salarins lítinn skilning og áhuga. Henni leist ekkert á vangaveltur meirihlutans að starfsemin yrði boðin út og rekin af einkaaðilum. Hugmynd sem ekki hefur komið til framkvæmda.

„Ég held að stjórn­mála­mönn­um vegni al­mennt bet­ur ef þeir skilja gildi menn­ing­ar í sam­fé­lag­inu,“ sagði Aino Freyja.

Bjarni Haukur Þórsson leikari var tilkynntur sem nýr forstöðumaður Salarins í lok desember. Hann staldraði stutt við í starfi því hann sagði því lausu innan þriggja mánaða reynslutíma sem kveðið var á um í samningi. Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi, fór þess á leit að Axel Ingi, sem þá starfaði sem verkefnastjóri Salarins, gengdi stöðu forstöðumanns fram að hausti en þá stóðu vonir til þess að búið yrði að ráða í starfið.

Starfið var auglýst að nýju og sóttu þrjátíu um. Axel Ingi þótti hæfastur og ráðinn forstöðumaður til fimm ára. Í tilkynningu frá Kópavogsbæ segir að Axel Ingi sé með BA og M.Mus í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands og meistarapróf í menningarstjórnum frá Háskólanum á Bifröst. 

„Hann hefur starfað sem tónskáld, lagahöfundur, kórstjóri og píanóleikari. Má þar nefna að hann samdi og flutti tónlistina í leikritinu Góðan daginn Faggi eftir Bjarna Snæbjörnsson og Grétu Kristínu Ómarsdóttur sem sló í gegn og hlaut fyrir verkið tilnefningar til Grímunnar og Íslensku tónlistarverðlaunanna. Axel Ingi ásamt Pétri Karli Heiðarsyni samdi einnig tónlistina í uppfærslu Leikfélags Akureyrar á And Björk of Course eftir Þorvald Þorsteinsson. Þá hefur hann samið tónlist fyrir fjölmörg önnur leikrit og kvikmyndir.“

Axel Ingi hefur einnig unnið við texta- og handritaskrif fyrir leiksýningar og sjónvarpsþætti, sett á fót eigin leiksýningar og tónlistarviðburði, verkefnastýrt viðburðum og unnið sem kórstjóri og píanókennari. 

„Axel Ingi hefur metnaðarfulla sýn á framtíð Salarins sem er einstakt tónlistarhús auk þess að vera vettvangur viðburða af ýmsum toga. Þá er afar ánægjulegt að fá hann í hóp öflugra menningarstjórnenda í Kópavogi,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs í tilkynningu.

„Axel Ingi hefur mikla þekkingu og innsýn í ólíkar tónlistarstefnur sem mun nýtast afar vel. Þá hefur hann mikinn metnað fyrir menningarstarfi í Kópavogi og mun leggja þar dýrmætt lóð á vogarskálarnar,“ segir Soffía Karlsdóttir, forstöðumaður menningarmála í Kópavogi.

Salurinn var vígður fyrir 25 árum og er fyrsta tónlistarhús á Íslandi sem hannað er með flutning tónlistar í huga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×