Erlent

Úkraínu­menn hafa náð valdi yfir Súdsja

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hart er tekist á í Kúrskhéraði og hafa um 120 þúsund íbúar svæðisins þurft að yfirgefa heimili sín.
Hart er tekist á í Kúrskhéraði og hafa um 120 þúsund íbúar svæðisins þurft að yfirgefa heimili sín. EPA/Rússneska varnamálaráðuneytið

Úkraínumenn hafa náð völdum yfir bænum Súdsja í Kúrskhéraði í Rússlandi. Þetta segir Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti í færslu á samfélagsmiðlum. Rússneski herinn mun senda aukinn herafla til svæðisins til að verjast árásum Úkraínumanna.

Selenskí lýsir því yfir í myndbandi sem hann birti á samfélagsmiðlinum X að herforingjar hafi tilkynnt honum að rússneski bærinn Súdsja væri nú undir yfirráðum úkraínska hersins. Þar eigi að koma upp sérstakri skrifstofu herstjórnarinnar í Kúrskhéraði. Fyrir stríð bjuggu um fimm þúsund manns í bænum.

Rússnesk yfirvöld hafa lýst innrás Úkraínumanna inn í Rússland, sem hófst fyrir rúmri viku síðan, sem „hryðjuverkaárás“ og að Úkraínumenn hafi haft borgaralega innviði að skotmörkum. Úkraínsk yfirvöld þvertaka fyrir þessar fullyrðingar.

Pútín Rússlandsforseti hefur sagt að Úkraínumönnum bíði vegleg málagjöld fyrir árásina en að fyrsta mál á dagskrá sé að koma úkraínsku herliði inn fyrir eigin landamæri.

Úkraínsk heryfirvöld hafa ekki tjáð sig um hve lengi þau hyggjast halda landsvæðum innan rússnesku landamæranna en hafa sagt að þau hafi ekki í hyggju innlima rússneskt landsvæði.

Úkraínski herinn gerði innrás í Kúrskhérað 6. ágúst.Vísir/Hjalti

„Okkar helstu varnarlínur við víglínuna eru við Toretsk, Pokrovsk og á fleiri stöðum. Þessi svæði sæta linnulausum rússneskum árásum og beinist athygli okkar hvað vörn varðar þangað. Forgangsbirðir, allt sem þarft er, verður sent þangað,“ segir hann meðal annars í myndbandinu.

Að sögn Selenskís hefur úkraínski herinn náð valdi yfir rúmlega áttatíu byggðum í Kúrskhéraði eða „frelsað“ eins og hann orðar það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×