Innlent

Leita öku­manns sem ók á stúlku og stakk af

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglan segir mikilvægt að tilkynna ef ekið er á fólk enda séu áverkar ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.
Lögreglan segir mikilvægt að tilkynna ef ekið er á fólk enda séu áverkar ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan lýsir eftir ökumanni bifreiðar sem ók á unglingsstúlku á Vatnsendavegi í Kópavogi í fyrradag og stakk af. Enginn ökumaður er sagður hafa stoppað til þess að huga að stúlkunni þrátt fyrir að töluverð umferð hafi verið.

Í tilkynningu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að atvikið hafi átt sér stað á Vatnsendavegi við Ögurhvarf um þrjú leytið á miðvikudag. Stúlkan hafi gengið ásamt vinkonu sinni til vestur og yfir Vatnsendaveg þegar bifreið var ekið suður götuna og á stúlkuna.

Stúlkan er sögð hafa hafnað á vélarhlíf bílsins og runnið síðan af henni. Ökumaðurinn hafi ekki skeytt neinu um það og ekið rakleiðis af vettvangi. Stúlkan hafi farið heim til sín og látið foreldra sína vita en þeir höfðu svo samband við lögreglu.

Upplýsingar liggja ekki fyrir um meiðsl stúlkunnar en lögreglan tekur sérstaklega fram að enginn ökumaður hafi séð ástæðu til þess að stoppa og athuga líðan hennar þrátt fyrir að margir hafi verið á ferðinni þegar atvikið átti sér stað. Lögreglan brýnir fyrir ökumönnum að ganga úr skugga um að engin meiðsl hafi hlotist af né að skemmdir hafi orðið við uppákomur sem þessar. Sömuleiðis sé áríðandi að tilkynna mál til lögreglu, ekki síst því ákverkar séu ekki alltaf sjáanlegir á vettvangi.

Lögreglan biður umræddan ökumann um að gefa sig fram en hafi aðrir orðið vitni að slysinu eru hinir sömu beðnir um að hafa samband í síma 444 1000. Upplýsingum um málið má sömuleiðis koma á framfæri í tölvupósti á netfangið sigrun.jonasdottir@lrh.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×