Fótbolti

Frönsku lands­liðs­mennirnir tryggðu PSG sigur í fyrsta leiknum án Mbappe

Smári Jökull Jónsson skrifar
Leikmenn PSG fagna marki í leiknum í kvöld.
Leikmenn PSG fagna marki í leiknum í kvöld. Vísir/EPA

PSG lék í kvöld sinn fyrsta leik í frönsku deildinni síðan Kylian Mbappe hvarf á braut til Real Madrid. Þá var stórlið Bayern Munchen í eldlínunni í þýska bikarnum.

Félagaskipti Kylian Mbappe frá PSG til Real Madrid höfðu legið lengi í loftinu en voru engu að síður stærsta fréttin á félagaskiptamarkaðnum í sumar.

Í kvöld spilaði PSG fyrsta leik sinn í frönsku deildinni á þessu tímabili þegar liðið mætti liði Le Havre á útivelli. Leikurinn byrjaði vel fyrir Mbappe-lausa PSG. Kóreumaðurinn Lee Kang-In kom gestunum yfir strax á 2. mínútu og frönsku meistararnir voru með 1-0 forystu í leikhléi.

Heimamenn í Le Havre jöfnuðu metin hins vegar strax í upphafi síðari hálfleiks og eftir það reyndu leikmenn PSG allt hvað þeir gátu að ná forystunni á ný. 

Það tókst heldur betur undir lokin. Ousmane Dembele kom PSG í 2-1 á 86. mínútu og annar franskur landsliðsmaður, Bradley Barcola, kom PSG í 3-1 mínútu síðar. Þriðji landsliðsmaðurinn, Randal Kolo Muani, innsiglaði síðan 4-1 sigur PSG í uppbótartíma. Góður sigur PSG staðreynd sem ætlar sér eflaust að sanna fyrir knattspyrnuáhugamönnum að liðið er hörkugott þó Mbappe sé farinn.

Í Þýskalandi tók þriðjudeildarlið Ulm á móti stórliði Bayern Munchen í þýska bikarnum. Gamla brýnið Thomas Muller skoraði tvívegis fyrir lið Bayern í fyrri hálfleik sem nú er undir stjórn Vincent Kompany sem tók við liðinu í sumar.

Staðan í hálfleik 2-0 og í síðari hálfleik bættu Bæjarar við tveimur mörkum. Fyrst var það Kingsley Coman en hann hefur verið orðaður við brottför frá Bayern. Harry Kane bætti fjórða markinu síðan við í uppbótartíma. Lokatölur 4-0 og Bayern örugglega áfram í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×