Fótbolti

Ron­aldo á skotskónum en Al Nassr beið af­hroð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ekki sáttur.
Ekki sáttur. Yasser Bakhsh/Getty Images

Cristiano Ronaldo og félagar í Al Nassr áttu aldrei möguleika gegn Al Hilal í Ofurbikar Sádi-Arabíu í kvöld.

Al Hilal eru ríkjandi landsmeistarar og sýndu að þeir ætla sér að verja titilinn með frábæri frammistöðu í kvöld. Það var hins vegar gamla brýnið Ronaldo sem kom Al Nassr yfir undir lok fyrri hálfleiks en Al Hilal svaraði með fjórum mörkum á aðeins 17 mínútna kafla í síðari hálfleik.

Hinn serbneski Sergej Milinković-Savić jafnaði metin þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik eftir undirbúning samlanda síns Aleksandar Mitrović. Það var svo Mitrović sjálfur sem kom Al Hilal yfir átta mínútum síðar eftir sendingu Rúben Neves. Sex mínútum eftir það má segja að Mitrović hafi tryggt Ali Hilal Ofurbikarinn með öðru marki sínu og þriðja marki Al Hilal.

Malcom, sem lagði upp þriðja markið, skoraði svo fjórða mark Al Hilal á 72. mínútu og staðan orðin 4-1. Reyndust það lokatölur leiksins og gott gengi Al Hilal heldur áfram. Ronaldo, Sadio Mané og félagar þurfa hins vegar að biðja um vænan liðsstyrk ætli þeir að eiga möguleika á að vinna einhverja titla í ár.

Aleksandar Mitrović skoraði tvö og fagnar hér gríðarlega.Yasser Bakhsh/Getty Images



Fleiri fréttir

Sjá meira


×