„Það eru alltaf einhverjir litlir skjálftar að tikka inn og virknin virðist örlítið meiri í dag en í gær, en ekkert stórt stökk,“ segir Minney í samtali við fréttastofu.
Hún segir ekkert að frétta af óróa en að starfsfólk Veðurstofu fylgist grannt með stöðunni. Það megi, eins og áður hefur komið fram, búast við því að eldgos hefjist með skömmum fyrirvara. Miðað við fyrri gos geti verið um hálftíma fyrirvari.
„Við erum ekki á staðnum en við fylgjumst vel með öllum gögnum, mælitækjum og vefmyndavélum.“
Líkt og greint hefur verið frá er rúmmál kviku undir Svartsengi áætlað meira en fyrir síðasta eldgos 29. maí. Þá hafði rúmmál kviku einnig aldrei verið meiri en kvikusöfnunin hélt áfram í tvær vikur eftir að fyrri mörkum var náð þar til eldgos hófst.
„Þetta er mesta rúmmálið sem hefur safnast frá því að gosin hófust. En það sama mátti segja um síðasta gos. Það var líka mesta magnið sem hafði safnast fyrir það gos,“ segir Minney og heldur áfram:
„Við erum komin á ákveðinn punkt en það er erfitt að segja hvort þetta gerist í nótt eða eftir tvær vikur. En við erum viðbúin öllu.“
Skjálftahrina við Flatey
Seinnipartinn í dag mældist einnig jarðskjálftahrina við Flatey. Töluvert hefur dregið úr henni en enn mælist einn og einn skjálfti.
„Þetta er mjög virkt svæði og það var síðast hrina þarna í júlí,# segir Minney og að algengt sé að þarna séu litlar hrinur.
Upptökin eru úti í sjó og skjálftarnir flestir í kringum einn að stærð og ólíklegt að þeir finnist í byggð að sögn Minneyjar.