Viðskipti innlent

Öllu starfs­fólki kollagenvinnslu í Grinda­vík sagt upp

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Húsnæði félagsins er óstarfhæft þó ekki sé altjón á því.
Húsnæði félagsins er óstarfhæft þó ekki sé altjón á því. Vísir/Vilhelm

Öllu starfsfólki Marine Collagen í Grindavík hefur verið sagt upp störfum. Í janúargosinu opnaðist stór sprunga á lóð fyrirtækisins en húsnæðið hafði verið óstarfhæft alveg síðan 10. nóvember.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Fimmtán starfsmönnum fyrirtækisins var sagt upp störfum í sumar og uppsagnarfresturinn rennur út nú í lok mánaðar. Erla Ósk Pétursdóttir, framvkæmdastjóri fyrirtækisins, segir uppsagnirnar hafa verið óhjákvæmilegar þar sem launastuðningur stjórnvalda renni út í lok ágúst.

Beðið niðurstöðu NTÍ

„Svo erum við bara að þrýsta á svör til að við getum tekið ákvörðun með framhaldið,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Að sögn Erlu er húsnæði fyrirtækisins óstarfhæft og ástandið á því slæmt. Þó hafa Náttúruhamfaratryggingar ekki lýst yfir altjóni á húsnæðinu. Erla segir að beðið sé niðurstöðu úttektarinnar til að hægt sé að taka ákvörðun um mögulega kostnaðarsama flutninga.

„Við erum svolítið föst þarna inni á milli,“ segir Erla.

500 bundnar í ónýtu húsnæði

„Stjórnvöld hafa hingað til ekki viljað kaupa upp atvinnuhúsnæði og þarna erum við með 500 milljónir bundnar og það munar um minna fyrir nýsköpunarfyrirtæki,“ segir Erla þá.

Erla segir allan gang vera á því hvort fráfarandi starfsfólk félagsins sé komið með annað starf.

„Það þarf að taka ákvörðun um framhaldið. Stjórnin þarf að setjast niður og meta það,“ segir Erla Ósk Pétursdóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×