Enski boltinn

Brent­ford byrjar tíma­bilið á sigri

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Yoane Wissa og Bryan Mbeumo sáu til þess að Brentford saknaði ekki Ivan Toney í dag.
Yoane Wissa og Bryan Mbeumo sáu til þess að Brentford saknaði ekki Ivan Toney í dag. Bryn Lennon/Getty Images

Brentford byrjar tímabilið 2024-25 í ensku úrvalsdeildinni á 2-1 sigri á Crystal Palace. Hákon Rafn Valdimarsson var á varamannabekk sigurliðsins. Athygli vakti að Ivan Toney var ekki með Brentford í dag vegna óvissu um framtíð hans. Í fjarveru hans stigu aðrir leikmenn upp.

Eberechi Eze hélt í örstutta stund að hann hefði komið gestunum yfir með frábæru marki úr aukaspyrnu en dómarinn hafði flautað vegna brots í teignum og því stóð markið ekki. Það nýttu heimamenn sér þegar hálftími var liðinn en þá skoraði Bryan Mbeumo eftir undirbúning Yoane Wissa.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiksins og staðan 1-0 þegar liðin gengu til búningsherbergja. Palace tók yfir í upphafi síðari hálfleiks og jöfnuðu gestirnir metin þegar Ethan Pinnock varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.

Ekki löngu síðar kom Odsonne Edouard, framherji Palace, boltanum í netið en markið dæmt af vegna rangstöðu og staðan því enn 1-1.

Það var svo Wissa sem tryggði Brentford stigin þrjú með marki þegar tæpur stundarfjórðungur lifði leiks, lokatölur 2-1 heimamönnum í vil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×