Fótbolti

Fengu að heyra það frá Ancelotti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Ancelotti, þjálfari Real Madrid, gengur ósáttur af velli eftir leikinn við RCD Mallorca í gær.
Carlos Ancelotti, þjálfari Real Madrid, gengur ósáttur af velli eftir leikinn við RCD Mallorca í gær. Getty/Oscar J Barroso

Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, var allt annað en ánægður með hugarfar leikmanna sinna eftir að Real náði bara jafntefli á móti Mallorca í fyrsta leiknum á nýju tímabili.

Rodrygo kom Real Madrid í 1-0 eftir aðeins þrettán mínútur en í stað þess að klára leikinn þá fengu Real menn á sig jöfnunarmark og töpuðu því tveimur stigum.

Við erum ekki ánægðir í dag

„Það vantaði allt jafnvægi í okkar leik í seinni hálfleik. Við gáfum færi á okkur í skyndisóknum og fyrirgjöfum. Þetta var ekki góður leikur. Við verðum að verjast betur og um fram allt að ná betra jafnvægi í okkar lið á vellinum,“ sagði Carlo Ancelotti. ESPN segir frá.

„Við erum ekki ánægðir í dag. Ég vil samt ekki koma með neina afsakanir. Við verðum bara að gera betur og vera með betra hugarfar. Við getum samt lært mikið af þessum leik því það var augljóst að við glímum við vandamál,“ sagði Ancelotti.

Ancelotti hrósaði liði Mallorca og nýja þjálfara þess Jagoba Arrasate. Ancelotti sagði líka úrslitin hafa verið sanngjörn.

Betra hugarfar

„Varnarleikurinn var ekki góður og það var erfitt fyrir okkur að vinna boltann aftur eftir að við töpuðum honum. Við verðum að bæta okkur þar og þegar ég er að tala um varnarleikinn þá er ég að tala um betra hugarfar og meiri samstöðu,“ sagði Ancelotti.

„Liðið mitt var of opið. Við verðum að ná upp betri einbeitingu og spila þéttar. Fólk heldur kannski að þetta sé vandamál hjá framherjunum en þegar framherjarnir pressa, þá hjálpa ekki miðjumennirnir og varnarmennirnir halda sig of aftarlega. Þetta er því ekki eitt frekar en annað,“ sagði Ancelotti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×