Íslenski boltinn

Sjáðu Blikana nýta sér hjálp Skagamanna og ná í skottið á toppliði Víkings

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skagamennirnir Jón Gísli Eyland Gíslason og Viktor Jónsson fagna marki þess síðarnefnda.
Skagamennirnir Jón Gísli Eyland Gíslason og Viktor Jónsson fagna marki þess síðarnefnda. Vísir/Anton Brink

Þrír leikir fóru fram í Bestu deild karla í fótbolta í gærkvöldi og nú er hægt að sjá mörkin úr leikjunum en þau voru ellefu talsins.

Það var mikil dramatík í lokin þegar FH og Valur gerðu 2-2 jafntefli í Kaplakrika. Bæði lið skoruðu í uppbótatímanum.

Tryggvi Hrafn Haraldsson kom Val yfir í fyrri hálfleik en Sigurður Bjartur Hallsson jafnaði metin á 88. mínútu. Kristinn Freyr Sigurðsson kom Val aftur yfir á fjórðu mínútu í uppbótatíma en Björn Daníel Sverrisson tryggði FH stig með því að jafna metin á sjöundu mínútu viðbótartímans.

Blikar náðu Víkingum að stigum á toppnum með 3-1 heimasigri á Fram. Damir Muminovic kom Breiðablik yfir en Magnús Þórðarson jafnaði metin fyrir hálfleik. Ísak Snær Þorvaldsson og Patrik Johannesen tryggðu Blikum sigurinn í seinni hálfleiknum.

Klippa: Mörkin úr leik Breiðabliks og Fram

Skagamenn sóttu þrjú stig í Víkinga með 2-1 sigri á toppliðinu. Valdimar Þór Ingimundarson kom Víkingi yfir í upphafi leiks en mörk frá Inga Þór Sigurðssyni og Viktori Jónssyni snéru leiknum fyrir hálfleik og það urðu lokatölurnar.

Blikar eru með fjörutíu stig eins og Víkingar en markatala Víkings er enn örlítið betri. Skagamenn eru aftur á móti aðeins einu stigi frá þriðja sætinu þar sem Valsmenn sitja.

Mörkin úr leikjunum þremur eru hér fyrir ofan og neðan.

Klippa: Mörkin úr leik FH og Vals
Klippa: Mörkin úr leik Víkings og ÍA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×