Innlent

Engin út­köll vegna vatns­leka í nótt

Lovísa Arnardóttir skrifar
Slökkviliðið fór í nokkur útköll í gærkvöldi vegna vatnsleka en engin í nótt.
Slökkviliðið fór í nokkur útköll í gærkvöldi vegna vatnsleka en engin í nótt. Vísir/Vilhelm

Nóttin var róleg hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og engin fleiri útköll vegna leka. Í tilkynningu frá slökkviliðinu kemur fram að síðasta sólarhringinn hafi þeir farið í átta útköll á dælubíla. Flest verkefnin voru leyst á nokkrum klukkustundum en um var að ræða bæði smáelda og vatnsleka.

Í tilkynningu segir að ekki sé víst hvort vatnslekarnir tengist heitavatnsleysinu á hluta höfuðborgarsvæðisins en ekki sé óvíst að aðgerðirnar hafi hreyft við gömlum ofnum. Fólki var ráðlagt að kynda hús sin áður en vatnið var tekið af. Fram kom í frétt í gær að lekarnir voru allir á svæði þar sem búið er að taka vatnið af.

Magnús Kristjánsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að slökkviliði fylgist vel með þessum svæðum og geri það þar til vatnið verður aftur sett á á morgun.

„Við höfum þetta bakvið eyrað og sérstaklega á morgun þegar það er hleypt aftur á,“ segir Magnús og ráðleggur fólki að skoða vel leiðbeiningar frá Félagi pípulagningarmeistara um hvernig er best að koma í veg fyrir tjón þegar það gerist.

Hér á vef Veitna er hægt að fylgjast með tilkynningum frá Veitum um aðgerðina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×