Erlent

Herinn endur­heimti lík sex gísla á Gasa í nótt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mennirnir hvers líkamsleifar voru endurheimtar í nótt.
Mennirnir hvers líkamsleifar voru endurheimtar í nótt. Hostages Families Forum/AFP

Ísraelsher endurheimti lík sex gísla í aðgerðum á Gasa í nótt. Fimm gíslanna voru yfir 50 ára gamlir og þrír áttu ættingja sem var sleppt á meðan vopnahléi stóð í nóvember síðastliðnum.

Um var að ræða sex karlmenn; Yagev Buchshtav, Alexander Dancyg, Avram Munder, Yoram Metzger, Nadav Popplewell og Haim Perry.

Ísraelsher greindi frá því fyrr í sumar að Popplewell og Buchshtav væru látnir en Hamas-liðar sögðu Popplewell hafa látist í loftárásum Ísraels.

Samkvæmt Associated Press eru um það bil 110 einstaklingar enn í haldi Hamas og annarra hópa á Gasa en stjórnvöld í Ísrael telja að um þriðjungur þeirra sé látinn.

Vitað er að árásarmenn Hamas höfðu með sér líkamsleifar einstaklinga þegar þeir hörfuðu aftur til Gasa í kjölfar árásanna 7. október. Aðrir hafa dáið síðan.

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra lofaði aðgerðir hersins í nótt og sagði hjörtu þjóðarinnar harma missinn. „Ísraelsríki mun gera allt sem í þess valdi stendur til að endurheimta alla gíslana, bæði lifandi og látna,“ sagði hann.

Samtök fjölskyldna gíslanna sem voru teknir 7. október sögðust ánægð með fregnir næturinnar en hafa ítrekað áköll um að stjórnvöld gangi til samninga um lausn þeirra sem enn eru í haldi.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, átti þriggja tíma fund með Netanyahu í gær og mun svo eiga fundi með ráðamönnum í Egyptalandi og Katar í dag eða á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×