Viðskipti innlent

Fljúga til Ála­borgar næsta sumar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Fyrsta ferðin er í júní á næsta ári.
Fyrsta ferðin er í júní á næsta ári. Vísir/Vilhelm

Flugfélagið Play mun hefja áætlunarflug til Álaborgar í júní næsta sumar. Þetta er þriðja borgin sem Play hefur flugferðir til en fyrir er flogið til Kaupmannahafnar allan ársins hring og til Billundar yfir sumarið. 

„Við erum virkilega ánægð að fjölga áfangastöðum okkar í Danmörku og geta þannig boðið þeim fjölda Íslendinga sem þar býr upp á hagkvæman kost til að komast til Íslands að heimsækja fjölskyldu og vini. Tengiflugið okkar til Norður-Ameríku mun einnig verða góð viðbót fyrir íbúa Álaborgar. Þetta eru því góðar fréttir fyrir þann stóra hóp fólks sem býr í vesturhluta Danmerkur og að sjálfsögðu Íslendinga sem vilja komast þangað í frí,” er haft eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, í tilkynningu.

Álaborg er fjórða stærsta borg Danmerkur og þar búa um 120 þúsund manns. Hún er á norðurhluta Jótlands, 73 kílómetrum norðar en stærsta borg Jótlands, Árósir.

Fyrsta ferðin verður flogin 7. júní næsta sumar og flogið verður alla þriðjudaga og laugardaga til 26. ágúst. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×