Innlent

Nú má heita Arló og Marló en ekki Salvarr

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Mögulega sitja hér Todor, Arló, Listó og fleiri góðir að snæðingi. Allavega enginn Salvarr.
Mögulega sitja hér Todor, Arló, Listó og fleiri góðir að snæðingi. Allavega enginn Salvarr. vísir/vilhelm

Mannanafnanefnd birti í vikunni tíu úrskurði þar sem teknar voru fyrir nafnabeiðnir. Allar beiðnir voru samþykktar utan beiðni þess sem vill heita Salvarr.

Að mati nefndarinnar fer það gegn almennum ritreglum íslensks máls að rita nafn með tveimur errum í endingarlið. Nafnið sé ekki á mannanafnaskrá og komi ekki fyrir í manntölum né fornum ritum og hafi ekki verið borin af mönnum í fjölskyldu umsækjanda. 

Beiðni um eiginnafnið Salvarr var því hafnað.

Önnur nöfn hlutu náð fyrir augum nefndarinnar. Þar á meðal Santos, Konstantína og Líana. Nöfnin eru eftirfarandi:

  • Listó
  • Arló
  • Todor
  • Marló
  • Ástborg
  • Líana
  • Konstantína
  • Logar
  • Santos

Fjögur skilyrði

Til þess að heimilt sé að samþykkja nýtt eiginnafn þurfa öll skilyrði um mannanöfn að vera uppfyllt. Skilyrðin eru:

  1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli.
  2. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi.
  3. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess.
  4. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×