Handbolti

Duvnjak búinn að lofa Degi

Sindri Sverrisson skrifar
Domagoj Duvnjak hefur lengi verið í hópi stærstu stjarna handboltans.
Domagoj Duvnjak hefur lengi verið í hópi stærstu stjarna handboltans. Getty/Marcus Brandt

Eftir Ólympíuleikana í París í sumar og orð sem Domagoj Duvnjak, skærasta stjarna Króata í handbolta, lét falla benti allt til þess að hann hefði spilað sinn síðasta leik fyrir Dag Sigurðsson. Svo er hins vegar ekki.

Duvnjak er orðinn 36 ára gamall og ljóst að stórmótin sem hann spilar á verða ekki mikið fleiri.

Hann var í landsliðshópnum sem Dagur valdi fyrir Ólympíuleikana í sumar en eftir dvölina á leikunum, sem var styttri en vonir stóðu til, hljómaði Duvnjak eins og hann íhugaði að hætta í landsliðinu:

„Ég hef átt frábæran tíma með þessum strákum en ég á þrjá krakka heima. Ég þarf að leggjast undir feld og ákveða hvernig framhaldið verður,“ sagði Duvnjak samkvæmt 24 Sata.

Vill kveðja á HM á heimavelli

Nú hefur hann hins vegar hugsað sig vel um og ákveðið að spila að minnsta kosti með landsliðinu í janúar á næsta ári, þegar heimsmeistaramótið fer fram í Króatíu, Danmörku og Noregi.

„Ég hef þegar rætt við Dag Sigurðsson þjálfara. Ef að landsliðið þarf á mínum kröftum að halda á HM þá er ég tilbúinn að spila fyrir Króatíu í síðasta sinn,“ sagði Duvnjak.

Þrátt fyrir sigra gegn Japan og Þýskalandi þá missti Króatía, undir stjórn Dags Sigurðssonar, naumlega af sæti í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna.Getty/Igor Kralj

Duvnjak gæti því kvatt landsliðið á heimavelli eftir dygga þjónustu, og góðar líkur eru á að einn af síðustu leikjunum yrði þá gegn Íslandi í milliriðlakeppni HM.

Í 24 Sata segir að niðurstaðan í París hafi einfaldlega ekki verið viðeigandi endalok fyrir Duvnjak. Hann verðskuldi medalíu og helst gull, en króatíska liðið féll úr leik í riðlakeppninni á Ólympíuleikunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×