Fótbolti

Bellingham missir lík­lega af leiknum gegn strákunum hans Heimis

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jude Bellingham er meiddur.
Jude Bellingham er meiddur. getty/Pedro Salado

Jude Bellingham missir væntanlega af næstu leikjum enska landsliðsins vegna meiðsla.

Bellingham meiddist á kálfa á æfingu með Real Madrid og spænskir fjölmiðlar greina frá því að hann verði ekki klár í slaginn á ný fyrr en seinni hluta september.

Ef það reynist rétt missir Bellingham af fyrstu leikjum enska landsliðsins í B-deild Þjóðadeildarinnar. England mætir Írlandi 7. september og Finnlandi þremur dögum seinna. Lee Carsley stýrir enska liðinu í leikjunum tveimur. Heimir Hallgrímsson stýrir írska landsliðinu í fyrsta sinn gegn því enska í leiknum í Dublin.

Bellingham var í byrjunarliði Real Madrid sem gerði 1-1 jafntefli við Mallorca í 1. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar um síðustu helgi.

Hinn 21 árs Bellingham vann spænsku úrvalsdeildina og Meistaradeild Evrópu með Real Madrid á síðasta tímabili, sem var hans fyrsta hjá félaginu. Bellingham skoraði 23 mörk fyrir Real Madrid í öllum keppnum á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×