Innlent

Lög­regla hafði af­skipti af „ungum jedi-riddara“ sem skelfdi veg­far­endur

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Ekki er vitað hvað unga jedanum gekk til en hann lofaði að finna æfingum sínum betri stað.
Ekki er vitað hvað unga jedanum gekk til en hann lofaði að finna æfingum sínum betri stað. Vísir/Samsett

Lögregla hafði afskipti af „ungum jedi-riddara“ við æfingar með geislasverð á gangstétt í Reykjavík þar sem æfingar hans voru að skelfa gangandi vegfarendur. Lögregla ræddi við manninn og hann lofaði að finna æfingum sínum betri stað.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í dagbók lögreglu frá því í dag en mikil dagskrá stendur yfir í miðbænum vegna Menningarnætur og því margmenni á götum borgarinnar. Lögregla segir allt viðburðarhlad hafa gengið vel hingað til.

Beit starfsmenn til blóðs

Lögregla sinni virku eftirliti á vaktbifreiðum, reiðhjólum og fótgangandi í dag vegna þess fjölda sem sækir miðbæinn.

Í dagbók lögreglu kemur einnig fram að lögregla hafi verið send með forgangi að verslun þar sem starfsmenn höfðu mann í tökum eftir búðarþjófnað. Þjófurinn meinti haðfi í atganginum náð að bíta starfsmennina til blóðs. Aðilinn var í verulega annarlegu ástandi, að sögn lögreglu, og verður vistaður í fangaklefa þar til hægt verður að ræða við hann.

Sex ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíknefna. Þeir voru fluttir á lögreglustöð í hefðbundið ferli.

Hljóp á brott með dýra úlpu

Einnig var tilkynnt um þjófnað í verslun en þar hafði aðili tekið tvær úlpur í mátunarklefa, skilað annarri og hlaupið á brott með hina. Lögregla segir málið í rannsókn.

Þá var einnig tilkynnt um vinnuslys þar sem maður hafði skorið sig á hendi við að sníða til parket og var fluttur á slysadeild til aðhlynningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×