Enski boltinn

Hljóðið þungt í Dyche: „Það er enginn peningur til“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sean Dyche er í erfiðri stöðu hjá Everton.
Sean Dyche er í erfiðri stöðu hjá Everton. getty/David Rogers

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Everton, var ekki upplitsdjarfur eftir 4-0 tapið fyrir Tottenham í ensku úrvalsdeildinni í gær. Hann segir að félagið eigi ekki pening til að kaupa nýja leikmenn.

Everton hefur tapað báðum leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu, 7-0 samanlagt, og margir spá erfiðu tímabili á Goodison Park.

„Þetta hefur verið endalaus áskorun síðan ég kom hingað og það er það eina sem ég þekki hjá Everton,“ sagði Dyche eftir tapið fyrir Spurs.

„Þetta heldur bara áfram og áfram og áfram. Þannig er bara staðan hjá félaginu. Ég er raunsær og staðan er erfið hjá Everton. Það eru nokkrar goðsagnir á sveimi. Ein þeirra er um að við ættum að vera í Evrópukeppni. Hvað gerðist síðustu þrjú tímabil? Vorum við ekki að reyna að komast í Evrópukeppni?“

Dyche segir að hann geti ekki leyst vandamál Everton á félagaskiptamarkaðnum. Félagið hafi einfaldlega ekkert milli handanna.

„Það er skrítið þegar fólk segir: Af hverju ferðu ekki og kaupir einhvern? Hvað meinarðu, það er ekki til neinn peningur. Það er ekki eins og ég vilji ekki kaupa neinn og safna pening. Þar til einhver segir mér eitthvað annað er þetta það sem við höfum til að vinna með,“ sagði Dyche.

Næsti leikur Everton er gegn Bournemouth um næstu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×