Fótbolti

Sam­komu­lag í höfn og McTominay á leið til Ítalíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Scott McTominay gæti verið á leið til Ítalíu.
Scott McTominay gæti verið á leið til Ítalíu. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Skoski landsliðsmaðurinn Scott McTominay gæti verið á leið til Napoli frá Manchester United.

United og Napoli komust að samkomulagi um kaupverð í dag og er talið að ítalska félagið greiði um 30 milljónir evra fyrir leikmanninn, sem samsvarar um 4,6 milljörðum króna.

Þetta er annað árið í röð sem United hefur sýnt því áhuga að losa McTominay, sem er uppalinn hjá United, frá félaginu. McTominay sjálfur á þó enn eftir að samþykkja að fara til Napoli og semja um kaup og kjör við félagið.

Eins og áður segir er þetta ekki í fyrsta sinn sem United íhugar að selja skoska landsliðsmanninn. Síðasta sumar hafnaði McTominay því að ganga í raðir West Ham, en lék svo 32 leiki í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og skoraði í þeim sjö mörk.

Hann var einnig í byrjunarliði United er liðið tryggði sér enska bikarmeistaratitilinn með sigri gegn Manchester City.

Á nýhöfnu tímabili hefur McTominay komið við sögu í báðum deildarleikjum félagsins, en þó í bæði skiptin sem varamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×