Enski boltinn

Segir Arnór búa yfir snilli­gáfu

Sindri Sverrisson skrifar
Arnór Sigurðsson fagnar sigurmarki sínu gegn Oxford United. Hann kveðst í enn betra formi núna en á síðustu leiktíð.
Arnór Sigurðsson fagnar sigurmarki sínu gegn Oxford United. Hann kveðst í enn betra formi núna en á síðustu leiktíð. Getty/Lee Parker

Arnór Sigurðsson þurfti ekki langan tíma til að skora sitt fyrsta mark í ensku B-deildinni í fótbolta um helgina. Þjálfari hans hrósar íslenska landsliðsmanninum í hástert.

Arnór kom inn á og skoraði sigurmark Blackburn í 2-1 sigri gegn Oxford United á laugardag, og þar með hefur Blackburn náð í sjö stig úr fyrstu þremur leikjum sínum og er í 3. sæti deildarinnar.

Snoturt mark Arnórs, í stöng og inn, má sjá hér að neðan.

„Siggy [Arnór Sigurðsson] er með þessa snilligáfu, þennan smáklassa sem þarf til að skora svona og við erum himinlifandi fyrir hans hönd,“ sagði John Eustace, þjálfari Blackburn, við heimasíðu félagsins.

„Hann hefur þetta og við sjáum það á æfingum. Hann finnur þessi góðu svæði á vellinum og nýtt líkamann virkilega vel til að geta snúið að markinu,“ sagði Eustace.

Arnór missti af síðustu mánuðum síðustu leiktíðar eftir skelfilega tæklingu Ísraelans Roy Revivo í undanúrslitum EM-umspilsins í mars.

Það gladdi Eustace því enn frekar að sjá Íslendinginn aftur upp á sitt besta:

„Þetta hefur verið svolítið erfitt fyrir hann eftir að hann sneri aftur. Hann meiddist í lok síðustu leiktíðar og hefur lagt óhemju hart að sér á undirbúningstímabilinu. Það er afskaplega ánægjulegt fyrir bæði hann og alla aðra að hann skyldi skora sigurmarkið,“ sagði Eustace.

Arnór var að sjálfsögðu á sama máli. „Eftir erfið meiðsli í lok síðustu leiktíðar þá hefur það mikla þýðingu fyrir mig að koma til baka og skora sigurmarkið, sérstaklega fyrir framan Blackburn End. Við erum að byrja þetta tímabil vel, mér líður mjög vel og er í betra formi en á síðustu leiktíð,“ sagði Arnór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×