Erlent

Rússar gera um­fangs­mikla loft­á­rás á fjölda skotmarka í Úkraínu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Fólk leitar skjóls í neðanjarðarlestakerfinu í Kænugarði.
Fólk leitar skjóls í neðanjarðarlestakerfinu í Kænugarði. Getty/Global Images Ukraine/Yan Dobronosov

Rússar gerðu umfangsmiklar loftárásir á Úkraínu í morgun en að sögn forsætisráðherrans Denys Shmyhal beindist hún gegn fimmtán héruðum. Að minnsta kosti fimm eru látnir og fleiri særðir.

Þá segir Shmyhal að orkuinnviðir hafi verið meðal skotmarka og að unnið sé að því að koma jafnvægi á kerfið.

German Galushchenko, orkumálaráðherra Úkraínu, segir ástandið krefjandi og á samfélagsmiðlum sakaði hann Rússa um að vera staðráðna í því að taka rafmagnið af Úkraínu.

Árásin samanstóð af eldflaugum og drónum en á meðan íbúar víða leituðu skjóls í loftvarnarbyrgjum notuðu ráðamenn tækifærið til að biðla til Vesturlanda um aukna aðstoð.

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti sagði á X/Twitter að um hefði verið að ræða eina umfangsmestu loftárás Rússa hingað til og sagði lífsbjörg ef bandamenn kæmu til aðstoðar. Það væri tímabært að Bandaríkin, Bretar, Frakkar og aðrir hjálpuðu Úkraínumönnum til að stöðva Rússa.

„Það má ekki takmarka möguleika Úkraínu til langdrægra árása á meðan hryðjuverkamennirnir sæta engum slíkum takmörkunum,“ sagði hann meðal annars en vopnasendingar annarra ríkja hafa löngum verið háðar því skilyrði að vopnin verði ekki notuð til að gera árásir á Rússland.

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, tók í sama streng og kallaði einnig eftir því að nágrannaríki Úkraínu tækju þátt í því að skjóta niður rússneskar flaugar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×