Innlent

Á­ríðandi að slysið verði rann­sakað og öllum spurningum svarað

Lovísa Arnardóttir skrifar
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir um 500 þúsund fara upp á jökul árlega.
Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir um 500 þúsund fara upp á jökul árlega.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segist hafa verið sleginn yfir slysinu við íshellinn á Breiðamerkurjökli um helgina. Hann segist þakka fyrir það að fleiri hafi ekki lent undir ísfarginu. 

Hann segir mikilvægt að ferðaþjónustan, þjóðgarðurinn og stjórnkerfið taki öryggismenningu sína vel til skoðunar. Það megi enginn skorast undan því að svara erfiðum spurningum í kjölfar slyssins. Jóhannes Þór fór yfir þessi mál í Bítinu á Bylgjunni í morgun.

Tilkynnt var um slysið síðdegis á sunnudag. Þá töldu viðbragðsaðilar að fjórir hefðu lent undir ísnum. Stuttu seinna tókst að bjarga bandarísku pari undan honum. Karlmaður var úrskurðaður látinn á vettvangi en konan hans var flutt á slysadeild. Hún er ekki sögð í lífshættu.

Um 200 viðbragðsaðilar voru við leit á jöklinum við mjög krefjandi aðstæður í um sólarhring að leita að tveimur ferðamönnum sem talið var að væru undir ísnum. Eftir ítarlega leit, þar sem ísinn var meðal annars færður með handafli, komust þau að því að fólkið var ekki undir og voru ýmis gögn sem studdu það samkvæmt tilkynningu Lögreglunnar á Suðurlandi í gær.

Jóhannes Þór segist taka undir orð Félags fjallaleiðsögumanna að það sé best að bíða með sleggjudóma áður en rannsókn ljúki á slysinu.

„Við þekkjum það að slys geta átt sér stað þótt farið sé að öllu með gát,“ segir hann og að stundum gleymist að tikka í einhver box. Það sé ekki vitað hvað gerðist í aðdraganda slyssins og það sé áríðandi að það verði rannsakað mjög vel.

„Svo við verðum með einhvern grunn til að læra af,“ segir Jóhannes og að aðeins þannig sé hægt að koma í veg fyrir að slíkt gerist aftur.

Jóhannes Þór segir sölu í svona ferðir fara fram eins og sala á öðrum miðum í til dæmis Hörpu. Það sé einn sem kaupi og sé skráður en það séu kannski tveir til þrír miðar keyptir. Það séu ekki skráðar upplýsingar um alla aðila endilega.

„En það er vissulega eitthvað skrítið við það að ekki sé vitað almennilega hversu margir í ferðinni og það er eitt af því sem þarf að komast að af hverju var.“

Jóhannes Þór segir flesta ferðaþjónustuaðila ekki fara í svona ferðir á þessu svæði yfir sumarið vegna öryggis. Það sé samt ekki algilt og sem dæmi sé það talið öruggt allt árið að heimsækja íshella við Kötlu. Fram kom í fréttum í gær að búið hafi verið að vara við svæðinu þar sem slysið varð. Jökullinn sé á sífelldri hreyfingu yfir sumartímann og því geti skapast hættulegar aðstæður.

Starfsleyfi í gildi

Jóhannes Þór segir að á næstu vikum verði að taka til skoðunar ýmsar spurningar varðandi þetta slys og að ein þeirra sé hvort það sé forsvaranlegt að bjóða upp á ferðir á þessu svæði yfir sumartímann. Hann bendir á að Vatnajökulsþjóðgarður hafi gefið út starfsleyfi allan ársins hring og því hafi fyrirtækin getað unnið þarna á sumrin líka.

Hann segir SAF ekki hafa völd til að stöðva slíka starfsemi. Innan samtakanna séu fyrirtæki sem hafi mismunandi skoðanir á þessu.

„Þetta er vissulega eitthvað sem hefur komið upp í samtölum við okkur, bæði sjónarmið,“ segir Jóhannes Þór og að hann hafi líka rætt þetta við framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hann segir mikilvægt að fyrirtækin skoði það vel hvernig þeirra öryggismenning sé. Hvaða staðlar séu og hvernig þeim sé fylgt. Inni í því ætti að vera áhættumat á svona verðum.

Þá segir Jóhannes ábyrgð liggja hjá þjóðgarðinum og að hann þurfi að skoða sína ferla og gögn. Hann gerir ráð fyrir því að Vatnajökulsþjóðgarður taki þetta til gagngerrar skoðunar. Starfsleyfið sé veitt allan ársins hring og þau segist treysta dómgreind fyrirtækjanna. Þar starfi fólk sem hafi mikla reynslu af jöklaleiðsögn.

„En það eru hins vegar þarna mismunandi sjónarmið um það hvort að þetta sé öruggt, hvort það sé áhætta og það eru ýmsir í faginu sem segja það of mikla áhættu að vera þarna á ferðinni á þessum tíma,“ segir Jóhannes og að það megi enginn skorast undan því að svara þeim spurningum sem nú vakna um starfsemi þarna á þessum tíma.

Þjóðgarðurinn hefur biðlað til ferðaþjónustuaðila að fara ekki í fleiri slíkar ferðir á þessum árstíma.

Umræða um græðgi ósanngjörn

Jóhannes segir umræðu um græðgi á kostnað öryggis í tengslum við þetta atvik afar ósanngjarna. Það séu um 500 þúsund sem fari árlega upp á jökul með ferðaþjónustuaðilum en það sé ekki hægt að gera það nema vera með öryggismálin í standi. Allir ferðaþjónustuaðilar skili öryggisáætlun til Feðramálastofu sem sjái um eftirfylgd og hafi lagt meiri áherslu á það undanfarið.

„En það er þörf á því, þegar svona gerist, að fyrirtækin axli þá ábyrgð að fara yfir allar sínar áætlanir,“ segir Jóhannes og að það sé alltaf hægt að gera betur.

„Það er það sem skiptir máli núna. Að við tökum höndum saman í þessu. Allir sem koma að þessu. Stjórnkerfið, þjóðgarðurinn og fyrirtækin,“ segir Jóhannes Þór og að það verði allir að nota þær aðferðir sem til eru til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur.

Hann nefnir sem dæmi slys sem áttu sér stað í Silfru fyrir nokkrum árum. Það hafi ekki gerst aftur því eftir slysahrinuna sem varð þar tóku fyrirtækin frumkvæði að því að ræða við þjóðgarðinn um að skapa betri öryggisaðstæður. Hvað þurfi marga leiðsögumenn, hversu margir séu í hverjum hópi og svo framvegis.

„Fyrirtækin þurfa að taka frumkvæði í því að bæta öryggismenningu sína,“ segir Jóhannes og að öryggisáætlun eigi ekki að vera dautt plagg. Það eigi að vera lifandi skjal sem allir starfsmenn séu meðvitaðir um.

Leiðbeinandi reglur komnar til ára sinna

Þá nefnir hann líka leiðbeinandi reglur um hvaða leiðsögumenn þurfi að vera með í hvers konar ferðum. Það sé skjal sem hafi verið gert í samstarfi fyrirtæki, Landsbjargar og SAF, meðal annars, og það þurfi að uppfæra. Þar eigi að fjalla um til dæmis hvaða námskeið fólk þurfi að ljúka til að fara upp á jökul og svo framvegis. Jóhannes Þór segir að þessar reglur hafi ekki orðið að reglugerð en séu leiðbeinandi. Þær séu komnar til ára sinna og það þurfi að uppfæra þær.

Jóhannes segir það hafa háð greininni að það hafi gengið illa að halda úti háskólanámi í fjallaleiðsögn. Þau reyni að halda úti námi á framhaldsskólastigi í fjallamennsku. Hér hafi verið boðið upp á háskólanám frá Kanada á Keili en það hafi ekki tekist að halda því úti. Hann segir Félag fjallaleiðsögumanna hafa verið duglegt að bjóða upp á námskeið og fyrirtæki hafi sent starfsfólk sitt á þau.

„Þegar þú ert kominn með fólk upp á jökul, í aðstæður sem eru allt öðruvísi en kannski niðri við sjó, þá þarf að vera þar þekking á bak við í öllum hópum og þekking og reynsla til að meta aðstæður og áhættu.“

Hann segir að á sama tíma megi ekki gleyma því að Ísland sé hættulegt og jafnvel markaðssett þannig, sem ævintýraferðaland.

„Íslensk náttúra er bara hættuleg,“ segir Jóhannes og að miðað við þann fjölda sem hingað kemur á ári hverju og fer í hættulegar aðstæður, eins og uppi á jökli, þá gangi okkur vel að halda utan um þessa hópa og öryggi fólks. Öryggismenningin sé í ágætu standi en það geti alltaf komið upp svona atvik.

Jóhannes Þór segist ekki vilja sjálfur leggja mat á það hvort það eigi að banna jöklaferðir á þessum svæðum á sumrin en það sé skynsamlegt hjá þjóðgarðinum að biðla til ferðaþjónustuaðila að bíða með slíkar ferðir þar til þetta atvik og aðstæður þess hafa verið teknar til skoðunar.

Ríkisstjórnin fundar í dag og er slysið eitt málanna sem er á dagskrá. Jóhannes Þór segir alltaf gott þegar yfirvöld hafa áhuga á ferðaþjónustu og mjög mikilvægt að stjórnkerfið vinni með atvinnugreininni að vinna úr þessum atburði. Það hafi allir sömu hagsmunina og það gagnist engum að benda hver á annan.

Viðtalið er hægt að hlusta á í heild sinni hér að neðan.


Tengdar fréttir

Fengu rangar upp­lýsingar um fjölda ferða­mannanna á jöklinum

Ferðaþjónustufyrirtækið sem stóð að ferðinni í Breiðamerkurjökul í gær veitti lögreglu rangar upplýsingar um hversu margir hefðu verið í hópnum sem lenti í slysinu þar. Yfirlögregluþjónn segir að ekki hafi verið hægt að hætta leitinni þar til ljóst væri að enginn væri undir ísnum.

„Þetta er visst ógnarumhverfi“

Árni Tryggvason, hönnuður og ljósmyndari, hætti fyrir nokkrum árum störfum við leiðsögumennsku þar sem honum ofbauð sú hegðun sem hafi tíðkast innan ferðaþjónustunnar. Hann starfaði áður sem jöklaleiðsögumaður og tjáði sig um öryggismál í jöklaferðum en mátti í kjölfarið sæta hótunum. Frá þessu greinir Árni í færslu á Facebook-síðu sinni í dag, í tilefni af alvarlegu slysi á Breiðamerkurjökli í gær.

Ferða­mennirnir sem lentu undir ísnum banda­rískt par

Ferðamaðurinn sem lést þegar hann varð undir ísfargi við Breiðamerkurjökul var bandarískur. Kona hans slasaðist alvarlega en líðan hennar er sögð stöðug. Leit á svæðinu hefur verið hætt.

Leitin á Breiðamerkurjökli í myndum

Tugir björgunarsveitamanna, lögregla og aðrir viðbragðsaðilar hafa tekið þátt í aðgerðum á Breiðamerkurjökli frá því síðdegis í gær þegar ís hrundi úr jöklinum yfir ferðamenn sem þar voru í íshellaferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×